Gæti misst af EM

José Mourinho segir að Harry Kane gæti mögulega snúið aftur …
José Mourinho segir að Harry Kane gæti mögulega snúið aftur á knattspyrnuvöllinn í byrjun næsta tímabils. AFP

Harry Kane, framherji enska knattspyrnufélagsins Tottenham, gæti misst af Evrópumeistaramótinu næsta sumar en það er José Mourinho, stjóri Tottenham, sem greindi frá þessu á blaðamannafundi í gær. 

Kane er tognaður aftan í læri og í fyrstu var talið að hann yrði frá í um tíu vikur. Enskir fjölmiðlar töldu að Kane myndi snúa aftur á knattspyrnuvöllinn í apríl en Mourinho greindi frá því í gær að það væri ekkert öruggt í þeim efnum.

„Við munum reyna allt sem við getum til þess að Harry snúi aftur sem allra fyrst,“ sagði Mourinho. „Við reiknum með því að hann snúi aftur í apríl, kannski í maí og kannski ekki fyrr en í upphafi næstu leiktíðar,“ bætti Portúgalinn við.

Kane gekkst undir aðgerð vegna meiðslanna á laugardaginn síðasta en fyrsti leikur Englands á EM er gegn Króatíu 14. júní á Wembley. Það er því óvíst hvort Kane, sem hefur verið fyrirliði liðsins í undankeppninni, verði klár í slaginn.

mbl.is