Fyrirliðinn með háar kröfur

Pierre-Emerick Aubameyang hefur skorað 63 mörk í 101 leik fyrir …
Pierre-Emerick Aubameyang hefur skorað 63 mörk í 101 leik fyrir Arsenal síðan í janúar 2018. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Arsenal, vill fá umtalsverða launahækkun ef hann á að skrifa undir nýjan samning við félagið en það er ESPN sem greinir frá þessu. Aubameyang er samningsbundinn arsenal til sumarsins 2021 en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning á Emirates-vellinum.

Inter Mílanó og Barcelona eru sögð áhugasöm um leikmanninn sem getur farið frítt frá Arsenal næsta sumar ef félaginu tekst ekki að semja við hann. Arsenal hefur reynt að semja við framherjann í allan vetur en ESPN greinir frá því að fyrirliðinn vilja fá þriggja ára samning og 250.000 pund á viku ef hann á að framlengja á Englandi.

Það samsvarar rúmlega 40 milljónum íslenskra króna á viku í laun en Aubameyang gekk til liðs við Arsenal frá Borussia Dortmund í janúar 2018. Hann er orðinn 31 árs gamall en hann hefur skorað 63 mörk í 101 leik fyrir félagið í öllum keppnum. Arsenal vill fá 50 milljónir punda fyrir framherjann í sumar en hann kostaði Arsenal 56 milljónir punda.

mbl.is