Einn mesti markaskorari fyrr og síðar látinn

Jimmy Greaves gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu 1966.
Jimmy Greaves gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu 1966. AFP

Tottenham-goðsögnin Jimmy Greaves er látinn 81 árs að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Það tekur okkur öll þungt að hinn mikli Jimmy Greaves sé látinn, ekki var hann aðeins markahæsti leikmaður Tottenham frá upphafi heldur einn fremsti sóknarmaður enska landsliðsins fyrr og síðar,“ segir í tilkynningu Tottenham.

Markavél

Greaves skoraði 266 mörk fyrir félagið á sínum ferli og var í enska landsliðinu þegar það vann sitt fyrsta og eina heimsmeistaramót í knattspyrnu árið 1966, og það á heimavelli. Greaves skoraði alls 44 mörk í 57 leikjum með enska landsliðinu.

Markatölur Greaves eru ótrúlegar. Hann skoraði 356 mörk í efstu deild á Englandi á sínum ferli, met sem stendur enn. Tímabilið 1962/63 skoraði Greaves 37 mörk á einni leiktíð, eitthvað sem enginn Tottenham-leikmaður hefur leikið eftir síðan.

Þar að auki á Greaves markamet hjá Chelsea, þar sem hann hóf feril sinn, en hann skoraði 41 mark á einni leiktíð, 1960/1961.

Hann fór þaðan til AC Milan þar sem raðaði inn mörkum áður en hann gekk til liðs við Tottenham með áðurnefndum árangri. Þaðan fór hann til West Ham og spilaði út feril sinn þar. Hann gerði svo garðinn frægan í betri stofum fótboltans sem einn helsti sparkspekingur á Englandi.

mbl.is