Baðst afsökunar á spilamennskunni

Bruno Fernandes niðurlútur eftir tapið í gær.
Bruno Fernandes niðurlútur eftir tapið í gær. AFP

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, var ósáttur við frammistöðu sinna manna á vellinum er liðið mætti Bournemouth í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Bournemouth bar sigur úr býtum, 3:0, og áttu heimamenn fá marktækifæri í leiknum. Bournemouth vann í gær sinn fyrsta sigur í sögu félagsins á Manchester United á Old Trafford. Bruno Fernandes verður ekki með liðinu um næstu helgi gegn Liverpool þar sem hann tekur út leikbann fyrir fjölda gulra spjalda á tímabilinu.

Fyrr í vikunni unnu Manchester United góðan 2:1 sigur á Chelsea og margir aðdáendur vongóðir um að það hafi verið vendipunktur í gengi félagsins á tímabilinu, þar til í gær. 

„Ég vil biðjast afsökunar á þessari frammistöðu, þetta er óásættanleg spilamennska og þá er ég að tala um mína eigin, ég er ekki að tala um neinn annan. Allir leikmennirnir eru sammála um að þetta hafi verið fyrir neðan okkar getu og að við þurfum að spila betur.“ 

United-menn þurfa nú að snúa sér að Meistaradeild Evrópu, þar sem þeir mæta Bayern München á þriðjudag þar sem félagið þarf nauðsynlega þrjú stig til þess að tryggja sig áfram í 16-liða úrslit keppninnar. Manchester United fer svo í heimsókn á Anfield þar sem liðið mætir Liverpool næstu helgi í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert