Rekinn fyrir óviðeigandi samband við táningsstúlku

Jonathan Morgan.
Jonathan Morgan. Ljósmynd/Sheffield United

Enska knattspyrnufélagið Sheffield United hefur vikið Jonathan Morgan frá störfum sem þjálfara kvennaliðs félagsins eftir að í ljós kom að hann hafi átti í óviðeigandi sambandi við leikmann á táningsaldri er hann var þjálfari kvennaliðs Leicester.

Hann var rekinn frá Sheffield-félaginu á föstudag og þá sleit umboðsskrifstofa hans samstarfi við hann sömuleiðis. The Athletic greinir frá hvers vegna og er það vegna áðurnefnds sambands við leikmanninn unga.

Leikmaðurinn var aðeins 17 ára þegar samband þeirra hófst og hann tæplega þrítugur. Leikmaðurinn, sem ekki vildi láta nafn síns getið, sagði við Athletic að Morgan hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína gegn henni.

Í frétt Athletic kemur fram að leikmaðurinn hafi byrjað að leika fyrir aðallið Leicester þegar hún var sextán ára og ári síðar hafi þjálfarinn byrjað að senda henni óviðeigandi skilaboð, sem endaði með sambandi sem hann vildi halda leyndu. 

„Hann vissi að hann var að gera eitthvað rangt, annars hefði hann ekki viljað halda sambandinu leyndu,“ var haft eftir móður leikmannsins hjá Athletic.

„Hann sagði furðulega hluti við mig stundum. Hann hrósaði mér mikið en talaði líka um að ég yrði mjög falleg kona í framtíðinni. Hann bað um að halda þessu leyndu því aðrir leikmenn yrðu ekki sáttir ef þetta væri opinbert,“ sagði leikmaðurinn.

Morgan fór í leyfi frá Sheffield United undir lok síðasta árs vegna rannsóknar í kringum andlát Maddy Cusack, leikmanns liðsins. Var Morgan grunaður um að leggja leikmanninn í einelti sem átti stóran þátt í að hún tók eigið líf.

Hann byrjaði að stýra liðinu á ný snemma á þessu ári en er nú án starfs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert