Knattspyrnukonan unga tók eigið líf

Maddy Cusack var aðeins 27 ára gömul þegar hún tók …
Maddy Cusack var aðeins 27 ára gömul þegar hún tók eigið líf. Ljósmynd/Sheffield United

Knattspyrnukonan Maddy Cusack tók eigið líf 20. september á síðasta ári en hún var aðeins 27 ára gömul.

The Athletic greinir frá, en þar til í dag hafði ekki verið greint frá dánarörsökum enska leikmannsins.

Þar kemur einnig fram að foreldrar leikmannsins saka þjálfarann Jonathan Morgan um einelti í formlegri kvörtun sem þau sendu félaginu, sem hafði slæm áhrif á andlega heilsu Maddy. Morgan hefur vísað þeim ásökunum á bug.

Maddy Cusack í leik með Sheffield United.
Maddy Cusack í leik með Sheffield United. Ljósmynd/Sheffield United

Eftir innanhúsrannsókn komst félagið svo að því að Morgan hafi ekki gert neitt rangt, en Cusack-fjölskyldan er ekki sátt við þá niðurstöðu. Hefur hún biðlað til enska knattspyrnusambandsins að rannsaka hegðun þjálfarans frekar. 

Á meðal þess sem kemur fram í kvörtun foreldra hennar til félagsins:

Morgan var þjálfarinn hennar hjá Leicester, þar til hún yfirgaf félagið vegna hans árið 2019, þar sem hún var lögð í einelti. Gekk hún þá í raðir Sheffield United og skömmu síðar var Morgan ráðinn þjálfari Burnley.

Þegar þau mættust kallaði Morgan Cusack geðveika þegar hún tók sprett fram hjá honum á hliðarlínunni. Hann var svo síðar ráðinn þjálfari Sheffield United, sem gerði hana mjög stressaða.

Jonathan Morgan.
Jonathan Morgan. Ljósmynd/Sheffield United

Cusack var með fast sæti í byrjunarliði Sheffield-liðsins þar til Morgan tók við. Hann tók hana úr byrjunarliðinu og kvartaði yfir að hún væri of þung og beitti hana svo frekara einelti.

Eftir það byrjaði hún að fá kvíðaköst, flutti aftur heim til foreldra sinna og byrjaði að taka þunglyndislyf. Skömmu fyrir andlátið hafði hún beðið um sálfræðitíma hjá læknateymi félagsins, en hún mætti aldrei í slíkan.

Þá kemur einnig fram að aðrir leikmenn hafi stundum komið grátandi heim eftir æfingar hjá Morgan og það hafi verið eitrað andrúmsloft sem hann skapaði í búningsklefanum.

Félagið vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður Athletic leitaði eftir viðbrögðum.

Ef þú ert að upp­lifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, op­inn all­an sól­ar­hring­inn. Einnig er net­spjall Rauða kross­ins, 1717.is, opið all­an sól­ar­hring­inn. Píeta-sam­tök­in veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218. Á net­spjalli á Heilsu­vera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkr­un­ar­fræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka