Tók þátt í prufutökum MSI

Arnar Bjarni við tölvuna í Secret Lab stól
Arnar Bjarni við tölvuna í Secret Lab stól mbl.is/Árni Sæberg

Umsjónarmaður XY Esports í leiknum League of Legends er Arnar Bjarni Arnarson, einnig þekktur sem Oktopus.

Arnar þjálfar liðið ásamt einum öðrum en situr líka á varamannabekknum og hefur fyllt inn í æfingaleiki eða tekið þátt í litlum mótum.

Það hefur gengið vel hjá liðinu, það hreppti annað sæti í Vodafone-deildinni í vor en hafði jafnmörg stig og VITA sem var í fyrsta sæti. Liðið náði svo fjórða sæti í Vor deild LoL major 2021 fyrr í sumar.

Fjölga æfingum eftir lokapróf

Hann segir æfingarútínuna geta orðið frekar óreglulega á skólaárinu þegar liðsmenn hafa verið að leggja áhersluna á próf, sérstaklega lokapróf. Núna sé hins vegar stefnt að fimm æfingum á viku.

Leist ekkert á leikinn í byrjun

Arnar hefur spilað leiki frá unga aldri og hefur sennilega verið um tveggja eða þriggja ára gamall. Þá sat hann með bróður sínum og spilaði í PlayStation. Leikirnir sem sitja helst í minningu hans frá þeim tíma eru Crash Bandicoot, Spyro og Guardian's Crusade.

„Árið 2012 voru tveir góðir vinir mínir byrjaðir að spila League of Legends og þeir þurftu að grátbiðja mig um að spila með þeim, þar sem leikurinn heillaði mig mjög lítið við fyrstu sýn. Á endanum snerist þetta við og ég var sá sem var alltaf að biðja þá um að spila LoL.“

Keppti á móti á vegum Sjálfstæðisflokksins

Fyrsta mót sem hann tók þátt í var á LANi í Tækniskólanum og var hann frekar lélegur í leiknum þá – og liðið ekki mjög gott heldur. Það var hins vegar rosalega skemmtilegt segir hann þrátt fyrir að þeir hafi ekki staðið sig vel.

Næsta mót var Fálkinn 2014 sem haldið var af Sjálfstæðisflokknum og hitti hann þar Martein Gíslason, fyrrverandi varnarliða XY Esports, einnig þekktan sem Bad Habit. Þeir hafa verið liðsfélagar að mestu síðan þá. Ingvar Didriksen var líka í liðinu á því móti og hafa þeir sömuleiðis keppt mikið saman í gegnum tíðina.

Ári seinna gekk Arnar Snæland, núverandi miðbrautarmaður XY Esports, í lið með strákunum og þegar stillt var upp liðinu XY fyrir seinni hluta 2020 áttu þeir mátar endurfund.

Íslensk lið og keppendur skjalfestir á netinu

Arnar er ekki einungis frábær leikmaður heldur hefur hann einnig lagt hönd  á plóginn við að koma Íslandi á kortið inni á League of Legends Esports Wiki með því að skjalfesta upplýsingar um íslensk mót, íslenska spilara og íslensk lið. Til dæmis má finna upplýsingar um XY Esports hér.

Í maí tók hann þátt í prufutökum fyrir alþjóðlega mótið MSI sem var haldið í Laugardalshöllinni og vakti mikla athygli landsmanna, enda margar milljónir erlendis sem fylgjast með því móti.

XY Esports er duglegt að streyma frá keppnisleikjum sínum ef það er engin önnur opinber útsending og hægt er að fylgjast með þeim á twitch síðu þeirra.

Einnig er Danli Shen, varnarliði XY, mjög virk í að streyma og má finna hana á twitch-síðu hennar hér.

mbl.is