Hvaða skotleikur verður sá besti í ár?

Skjámynd úr einum af fjölmörgu Call of Duty-leikjunum.
Skjámynd úr einum af fjölmörgu Call of Duty-leikjunum. AP

Þrír skotleikir í vinsælum leikjaröðum eru væntanlegir seinni parts ársins; Halo Infinite, Battlefield 2042 og nýr Call of Duty-leikur. Allt eru þetta leikir sem hafa áður náð gríðarlegum vinsældum og verður áhugavert að sjá hvort nýjustu leikir þeirra muni gera það sama. En hvað vitum við meira um leikina?

Halo Infinite

Fyrsti leikurinn í leikjaröð Halo kom út árið 2001 og hafa nokkrir leikir verið gefnir út síðan. Næsti leikur í röðinni verður Halo Infinite, en áætlað er að hann verði gefinn út í síðasta ársfjórðungi þessa árs. Leikinn verður hægt að spila á Xbox One, Xbox Series X/S og tölvur með Microsoft Windows-stýrikerfi. 

Leikurinn minnir á eldri Halo-leiki með mun mýkri spilastíl. Grafíkin verður betri en nokkurn tímann áður og verður gaman að sjá Master Chief, aðalsögupersónu leiksins, í glænýjum leik. Master Chief þarf að horfast í augu við miskunnarlausa óvini er hann reynir að bjarga mannkyninu.

Útgefendur lýsa sögu leiksins sem þeirri viðamestu til þessa í leikjaröðinni. Ásamt frábærri einspilarasögu er leikurinn einnig til fjölspilunar, þar sem hægt er að spila með vinum og öðrum í gegnum netið. 

Battlefield 2042

Fyrsti Battlefield-leikurinn kom út árið 2002 og hefur mikill fjöldi leikja í leikjaröðinni verið gefinn út síðan þá. Battlefield 2042 verður nýjasti leikurinn í röðinni en áætlað er að hann komi út 22. október í ár. 

Síðustu Battlefield-leikir sem gefnir hafa verið út spönnuðu tímabil beggja heimsstyrjaldanna, en Battlefield 2042 mun teygja sig til framtíðar þar sem vélmenni koma m.a. við sögu. Kort, faratæki, her og vopn úr fyrri leikjum koma við sögu ásamt nýjungum úr framtíðinni. Leikurinn verður aðeins til fjölspilunar, og líkist uppbygging hans mjög fyrri leikjum leikjaraðarinnar. 

Leikurinn gerist í framtíðarheimi sem einkennist af mikilli óreglu, en leikmenn þurfa að aðlagast þeim heimi og mæta öðrum á breytilegum vígvelli með hjálp liðs síns og háþróaðra vopna.

Call of Duty 2021

Nafn nýjasta leiks Call of Duty hefur ekki verið opinberað, en útgefandi leiksins hefur tilkynnt að nýr leikur komi út seinna á þessu ári. Sögusagnir herma að nýjasti leikurinn muni byggjast á seinni heimsstyrjöldinni og mögulega bera nafnið Call of Duty: Vanguard. Fyrsti Call of Duty-leikurinn kom út árið 2003 og hefur leikjaröðin leitað í margar áttir síðan þá.

Nýlega bárust þær fréttir að Activision, framleiðandi Call of Duty, hefði rift samningi sínum við Sony í tengslum við mögulega endurútgáfu leiksins Call of Duty: Modern Warfare 3. Mörgum spurningum í tengslum við nýjasta leik Call of Duty er enn ósvarað, og því forvitnilegt hvort þessi leikur verði einn af bestu skotleikjum sem gefnir verða út á árinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert