Keppir með tveimur liðum

Lilja Þorvarðardóttir.
Lilja Þorvarðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Þorvarðardóttir „LiljaThor“ er liðsmaður í rafíþróttaliðinu Silfur Mosfellsbæjar en liðið keppir í skotleiknum Overwatch og býr liðið sig undir Almenna bikarinn um þessar mundir..

Hún keppir einnig í fyrstu persónu skotleiknum Valorant með liðinu KRAFLA.

Verið í keppnissenunni í tíu ár

Lilja hefur verið að spila keppnisbundna tölvuleiki í rúmlega tíu ár. Hún byrjaði í League of Legends og spilaði hann í nokkur ár, færði sig síðan yfir í Counter-Strike í kringum árið 2016 en sama ár prófaði hún Overwatch þó hún hafi ekki dottið almennilega inn í hann fyrr en um árið 2018.

Þegar Almenni bikarinn hófst var hún eiginlega hætt að spila Overwatch en var beðin um að ganga til liðs við Silfur Mosfellsbæjar og segir Lilja það hafa verið eina af bestu ákvörðunum sem hún hefur tekið í tengslum við tölvuleiki.

Byrjaði í Crash Bandicoot

„Ég spila mest Overwatch en finnst gaman að dunda mér í alls konar leikjum inn á milli,“ segir Lilja og er hetjan Widowmaker í þeim leik hennar uppáhalds persóna til spilunar. Einnig mælir hún með nokkrum skotheldum leikjum eins og Overwatch, Rust, Eco, Valheim, Dorfromantik og Raft.

Hennar allra fyrsti leikur var þó hinn klassíski Crash Bandicoot og spilaði hún hann á Playstation 1 tölvu en í framhaldinu spilaði hún hinn sígilda leik Spyro.

Eignaðist vinkonu í gegnum tölvuleikina

Lilja streymdi sér að spila League of Legends á sínum tíma en fékk ekki góða reynslu af því og dró þá verulega úr streymunum en kynntist á þeim tíma stelpu í gegnum tölvuleikjaspilun sem var einnig að streyma, sem kom til með að verða ein af hennar bestu vinkonum – og er það enn í dag.

„Ég er ekki hrædd við að standa upp fyrir öðrum,“ segir Lilja og nefnir að það sé mikið um falið kynjamisrétti í tölvuleikjum og hefur hún verið dugleg að hvetja aðrar stelpur í tölvuleikjasamfélaginu til þess að standa upp fyrir sjálfri sér.

Stuðningur frá liðsfélögunum

„Ég hef lent í svo miklu rugli í gegnum þessi tíu plús ár sem ég hef spilað keppnistölvuleiki,“ bætir hún við.

„Það hefur verið öskrað á mann, manni sagt að fara í eldhúsið, nauðgunarhótanir og alls konar. Þetta var mikið verra fyrir tíu árum heldur en í dag, en það er samt dass af þessu ennþá. Vegna þess að ég er búin að vera svo lengi í þessu þá er ég komin með frekar þykkan skráp, en stundum ef maður lendir í áföllum í þessum leikjum þá get ég orðið lítil í mér daginn eftir eða bara á stundinni þegar þetta er að gerast, og ég skríð inní skelina mína.“

Þegar hún byrjaði í Overwatch-liðinu sínu, Silfri Mosfellsbæjar, fann hún hins vegar fyrir miklum stuðningi og skilningi frá liðsfélögunum og kveðst geta rætt þessi mál opinskátt við þá.

„Það er miklu þægilegra að opna sig og tala um þessa hluti og þeir eru allir ótrúlega skilningsríkir. Það gleður mig ótrúlega mikið að ég þurfi ekki að basla með allt þetta ein á mínum herðum. Þá er ég með fimm plús aðila sem geta borið einhverja þyngd með mér, sem er ótrúlega gott.“

mbl.is