„Markmiðið er að verða Íslandsmeistari,“

Gísli Geir Gíslason, leikmaður hjá XY Esports, einnig þekktur sem …
Gísli Geir Gíslason, leikmaður hjá XY Esports, einnig þekktur sem TripleG. Ljósmynd/Vodafone deildin

Gísli Geir Gíslason, einnig þekktur sem TripleG, er 23 ára gamall rafíþróttamaður og keppir hann í tölvuleiknum Counter-Strike: Global Offensive með liðinu XY Esports.

Um þessar mundir er TripleG að einbeita sér mikið að því að bæta sig í leiknum og vera í „toppbaráttu á Íslandi“ ásamt því að vinna að því að skipa sér sess á erlendum vettvangi.

„Markmiðið er að verða Íslandsmeistari,“ segir TripleG í samtali við mbl.is.

Stundar æfingar með og án liðsins

Þjálfar hann sig því reglulega í leiknum ásamt því að stunda æfingar með liðinu en á venjulegum degi spilar hann Counter-Strike á háum spilunarhraða með öðrum reyndum spilurum. Þegar hann æfir sig á eigin spýtur heimafyrir hinsvegar einblínir hann á að þjálfa upp vöðvaminni, ákvarðanatöku og leikskilning.

Counter-Strike er hans uppáhalds leikur en var þó ekki fyrsti leikurinn sem hann spilaði, heldur var það hinn sígildi Crash Team Racing í PlayStation 1 leikjatölvu.

LAN-viðburðir eftirminnilegir

Kemur það TripleG ekki á óvart hvað rafíþróttir hafa stækkað ört seinustu árin og telur hann þjálfun rafíþrótta á markvissan máta vera sambærilegt því að stunda fótbolta eða skák á slíkan hátt.

Eins hefur hann farið á marga LAN-viðburði og telur þá alla hafa verið eftirminnilega en viðburðir sem slíkir hafa lengi verið stór hluti af tölvuleikjamenningu út um allan heim.

Má streyma meira

Hann segist ekki hafa verið að streyma mikið undanfarið og telur sig mega gera meir af því en hann streymdi töluvert fyrir um ári síðan og var það á Twitch-rásinni TripleGcs.

„Áfram allir íslenskir CS-spilarar, komum Íslandi á kortið! Hæfileikarnir eru til staðar,“ segir TripleG að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert