Verður aldrei aftur uppfærður

Watch Dogs: Legion.
Watch Dogs: Legion. Grafík/Ubisoft

Ubisoft hefur gefið út tilkynningu að fyrirtækið muni ekki uppfæra tölvuleikinn Watch Dogs: Legion aftur. Markar það endalok stuðningsþjónustu leiksins en aðeins fimmtán mánuðir eru síðan leikurinn var gefinn út.

Í skilaboðum til aðdáenda sem birt voru á vefsíðu Ubisoft þakka þróunaraðilar aðdáendum fyrir þátttökuna og segjast hafa „elskað að sjá efnið frá þeim og ástríðuna“. Haft eftir TechCodex.

Fimmta sería af Watch Dogs: Legion nethamnum fór af stað þann 22. janúar og mun ekkert nýtt efni taka við eftir hana. Efnið í tölvuleiknum mun fara í hringi, þar sem spilað verður á milli þriðju til fimmtu seríu að eilífu.

Ubisoft segir að leikmenn muni geta fengið „bæði ný og endurtekin verðlaun“ í nethamnum og fá tækifæri til að opna fyrir efni sem þeir misstu af áður. Það felur í sér jakka sem tilheyrir herra Aiden Pearce, sem og klæðnað uppáhalds frænda hans, Jackson.

mbl.is