Ekkert komið nálægt þeirri tilfinningu

Sigfinnur Andri, einnig þekktur sem Sigfusion.
Sigfinnur Andri, einnig þekktur sem Sigfusion. Ljósmynd/Aðsend

Sigfinnur Andri Marinósson er 23 ára gamall rafíþróttamaður en hann keppir með Silfri Mosfellsbæjar í tölvuleiknum Overwatch undir rafheitinu Sigfusion.

Almenni í Overwatch kláraðist nýlega svo liðsmenn taka því rólega um þessar mundir áður en æfingar hefjast á ný.

Alltaf eitthvað um að vera

Æfingar fara yfirleitt fram tvisvar til þrisvar sinnum á viku og eru þá spilaðir æfingaleikir. Sigfinnur æfir sig og spilar einnig utan liðsæfingar, að jafnaði spilar hann að lágmarki í tvær klukkustundir á dag.

Spjallþátturinn Gullspjallið er þó með Gullspjallsleikana í undirbúning og var Sigfinnur valinn til þess að spila í Sigma-dodgeball, en það er smáleikur sem aðrir spilara hönnuðu.

„Uppáhalds leikurinn er auðvitað Overwatch, en það er smá „love-hate“ dæmi,“ segir Sigfinnur í samtali við mbl.is.

Fyrstu persónu skotleikir hrífa hann mest en þrátt fyrir það segir hann að tölvuleikurinn Star Wars Jedi: Fallen Order sé hans uppáhalds leikur á eftir Overwatch.

Stalst í leik hjá pabba

„Ég og bróðir minn fengum PlayStation 1 að láni og okkur líkaði svo vel að við fengum okkar eigin PlayStation 2,“ segir Sigfinnur og bendir á tölvuleikina Crash of the Titans og Jack X, sem voru eftirminnilegir leikir í slíkum leikjatölvum.

Þegar félagi Sigfinns kynnti hann svo fyrir tölvuleiknum Minecraft, fór hann að spila þann leik í tölvunni hjá pabba sínum og fór í kjölfarið á því að „stelast í Call of Duty: MW3 - sem hann mátti alls ekki spila“.

„Þar í raun kviknaði áhuginn á FPS-leikjum en keppnisskapið hefur alltaf verið til staðar. Það var ekki fyrr en í framhaldsskóla sem ég fékk mína fyrstu borðtölvu og byrjaði að spila CS:GO og svo Overwatch þegar hann kom út.“

Sá auglýsingu og lét vaða

Sigfinnur og félagar ákváðu að fara saman og keppa á lani í VMA á Akureyri, en það má segja að rafíþróttaferill hans hafi að hluta til byrjað þar. Þeir félagar voru þá að mæta á lan til þess að skemmta sér, en voru ekki „lið að æfa eða neitt svoleiðis“.

Síðan hófst rafíþróttaferillin af alvöru þegar hann fékk inngöngu í liðið Silfur Mosfellsbæjar, fyrir nærri tveimur árum síðan.

Hafði hann séð auglýsingu fyrir Overwatch-mót og langað til þess að taka þátt, en þar sem hann náði ekki að „sannfæra neinn“ til þess að keppa með sér þá var honum boðið að spila með Silfur.

Eftirminnileg tilfinning

Minnist hann þess sérstaklega þegar liðið náði að snúa leiknum við Höfðingjum/XY í seríu tvö af Almenna. Þá var Silfur Mosfellsbæjar undir og staðan 2-0 en tókst einhvern veginn að snúa þessu við og vann leikinn með 3-2 sigri.

„Ekkert annað hefur komið nálægt þeirri tilfinningu þegar við unnum seinasta kortið í þeim leik.“

Sigfinnur hefur það að markmiði að halda áfram að bæta sig í leiknum en hann er ekki aðeins að keppa í leiknum, heldur sér hann einnig um YouTube-rásina hjá Almenna Overwatch. Þar fara öll streymi og myndbönd af hápunktum frá deildinni.

Kærleikur á milli liða

Að lokum minnist Sigfinnur á hversu mikið samfélagið í kringum Overwatch hefur vaxið og dafnað seinustu ár.

„Mér finnst rosalega merkilegt hversu náið samfélagið er og hversu mikill stuðningur er til staðar, sama hvaða liði þú ert í. Sérstakar þakkir fær Bjöggi, einnig þekktur sem NAK, fyrir að byrja þetta allt.“

Hægt er að fylgjast með Sigfinn á YouTube eða Twitch.

Vilt þú vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is !

mbl.is