Búskapsdeildin farin aftur af stað

Búskapsdeildin, Farming Simulator Leauge.
Búskapsdeildin, Farming Simulator Leauge. Grafík/FSL

Nýtt tímabil í keppnissenu búskapshermisins Farming Simulator hófst í miðjum sauðburði. Fjórða tímabilið fór af stað fyrr í mánuðinum en síðasta heimsmeistaramót fór fram í nóvember á síðasta ári.

Tugi milljóna í verðlaun

Fjórða tímabil Búskapsdeildarinnar hófst fyrr í mánuðinum og var var fyrsta keppnin spiluð helgina 14. og 15. maí. Rafíþróttaliðið Trelleborg hampaði fyrsta sætinu og fór heim með 10.000 evrur, eða tæplega 1,4 milljón krónur.

Verðlaunapottur tímabilsins býr að 100.000 evrum, eða tæpum fjórtán milljón krónum, og skiptist tímabilið niður í sex keppnir á sex mánuðum. Þá hlýtur sigurvegari hvers móts 1,4 milljón krónur af verðlaunapottinum.

Þrír stafrænir bændur

Í beinu framhaldi fer heimsmeistaramótið fram, en það er í nóvember og fær þá heimsmeistari afganginn af verðlaunapottinum, sem nemur rúmlega 5,5 milljón krónum.

Liðin skipast af þremur leikmönnum og velja þeir sér landbúnaðarvélar og hæfileika (e. farming buffs) upphafi viðureignar. Svo halda þeir til uppskeru og keppast við að ná sem mestu hveiti. 

Keppt er á sitthvoru kortinu en liðin geta þrátt fyrir það haft áhrif á árangur mótherja sinna. Þá ef eitt liðið brennir brú á sínu korti, brennur sama brú á korti hins liðsins sem krefur það um að fara yfir aðra brú eða reyna að hoppa yfir brennandi brúna. 

Samfélagið opið öllum

Næsta mót í Búskapsdeildinni fer fram helgina 4. og 5. júní og hægt er að skrá sig til leiks í gegnum opinberu vefsíðu Búskapsdeildarinnar (FSL) en leikmenn eru beðnir um að lesa yfir reglurnar áður. 

Hér er að finna dagskrá fjórða tímabilsins, en leiðbeiningar um þátttöku í Búskapsdeildinni má finna hér

Búskapsdeildin og samfélagið í kringum hana er einnig með sína eigin Discord-rás, hér er boðshlekkur í hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert