Fullu jarðarberjatungli fagnað af Maxis

The Sims 4.
The Sims 4. Grafík/Electronic Arts

Í gærkvöldi var svokallað jarðarberjatungl, en þá var tunglið fullt og eins nálægt jörðu og hægt er. Á sama tíma var gerð stór uppfærsla á tölvuleiknum Sims 4 sem felur meðal annars í sér breytilega tunglstöðu sem hafa áhrif á Simsana innanleikjar.

Með uppfærslunni voru nokkrar gloppur lagfærðar og færði leikmönnum jafnframt nokkrar nýjungar sem tengjast varúlfa-aukapakkanum sem kemur út á morgun.

Vex og dvínar

Sem fyrr segir hefur Maxis uppfært leikinn í sambandi við tunglstöður og og kvartilaskipti. Þá munu leikmenn geta fylgst með tunglinu vaxa eða dvína frá nóttu til nætur, en hægt er að breyta því í stillingum leiksins.

Vegna þessa verður tunglsljósið á næturnar mismikið og breytilegt í nánast öllum hverfum úr öllum aukapökkum, þar á meðal „staðsetningar sem styðjast ekki við nein rök, eins og Magic Realm“.

The Sims 4.
The Sims 4. Grafík/Electronic Arts

Baðað sig í tunglsljósinu

Tunglstöður munu hafa áhrif á Simsana og geta Simsar, unglingar og eldri, nú baðað sig í tunglsljósinu. Hver tunglkvartill mun gefa af sér sérstakan bónus við leikjaspilun sem hægt er að skoða með því að færa músina yfir tunglmerkið neðst á skjánum.

Smábörn öðlast getu til þess að spyrja fullorðna út í tunglið. Þá geta þau spurt ákveðinna spurninga um hvern tunglkvartil og geta jafnframt boðið tunglinu góða nótt. Bjóði smábörn tunglinu góða nótt, dreymir þau sérstaka drauma.

Snertir yfirnáttúrulega Simsa

Tunglið mun einnig hafa einstaklega sterk áhrif á yfirnáttúrulega Simsa. Við ákveðna tunglstöðu verður vökvaþörf hafmeyja meiri og kraftur vampíra dvínar hraðar.

Galdrar seiðskratta verða líka líklegri til að skila árangri og geimverur upplifa sérstaka tilfinningu við að baða sig í tunglinu.

Nýr og smærri stjörnukíkir

Þar sem uppfærslan, sem og aukapakkinn sem kemur út á morgun, snýr sérstaklega að tunglinu og tunglstöðum, fá leikmenn Sims 4 einnig nýjan stjörnukíki.

Stjörnukíkirinn í Sims 4 er talsvert stærri en í Sims 3 og hafa sumir leikmenn verið ósáttir við kíkinn. Með nýju uppfærslunni geta leikmenn keypt smærri og fyrirferðarminni stjörnukíki og í varúlfapakkanum fylgir annar lítill stjörnukíkir.

Smærri stjörnukíkirinn hefur alla sömu eiginleika og sá stóri, fyrir utan einn. Ekki er hægt að láta Simsa stunda kynlíf í honum líkt og í þeim fyrri af augljósum ástæðum. Hér að neðan má sjá myndband af kíkinum.

Loftsteinar geta drepið

Í tilkynningu varar Maxis við því að skoða stjörnurnar á næturnar og bendir á að eitthvað skrítið gæti komið fyrir.

„Að skoða næturhimininn getur verið hættuleg iðja. Ef Simsinn þinn kemur auga á eitthvað sem stefnir í áttina að honum... Farðu strax inn! Dauði af völdum loftsteins er nú til! Loftsteinsdraugar líka, hvern hefði grunað það?“ segir í tilkynningu frá Maxis.

Fleiri atriði fylgja uppfærslunni en öll uppfærsluatriði má lesa með því að fylgja þessum hlekk.

mbl.is