Ground Zero kveður eftir 20 ára starfsemi

Fjölmargir Íslendingar eiga minningar frá lansetrinu Ground Zero, en það hefur verið starfrækt í tuttugu ár og lifað í gegnum tímana tvenna.

Þar með er Ground Zero það lansetur sem lengst hefur verið rekið á Íslandi fram að þessu. Það hefur einnig notið mikilla vinsælda meðal fjölda fólks.

Nú hefur Ground Zero greint frá því að eftir tuttugu ára starfsemi sé komið að lokun setursins. Músin verði lögð á hilluna í lok þessa mánaðar. 

Takmarkanir yfirvalda gerðu útslagið

Félagslegar takmarkanir yfirvalda síðustu ár urðu Ground Zero að falli.

Í tilkynningu þakkar fyrirtækið kúnnum sínum og gestum fyrir tímana saman, sem oft á tíðum voru frábærir, og segir að þarna hafi margir bundist vinaböndum.

Að undanförnu hefur Ground Zero verið að bjóða fólki að koma og gramsa eftir tölvubúnaði sem setrið ýmist selur eða gefur.

Selja Ground Zero-tölvur með öllu

Þar að auki selur Ground Zero leikjatölvur með öllu. Skjá, turn, mús, lyklaborði og heyrnartól ásamt snúrum og músamottum.

Tölvurnar fást allar uppsettar með Windows 10-kerfi, vírusvörn, Google Chrome, yfirfarnar og rykhreinsaðar.

Nánar um það má lesa í Facebook-færslu frá Kristni Inga, eða einfaldlega Inga Ground Zero.

mbl.is