Fljúga yfir Vökueyjarnar rúmu hálfu ári síðar

World of Warcraft: Dragonflight.
World of Warcraft: Dragonflight. Grafík/Blizzard

World of Warcraft-leikmenn geta nú hoppað hæð sína og flogið af stað þar sem nýjasti aukapakkinn í leiknum, Dragonflight, er kominn út að fullu.

Fjölmargir World of Warcraft-leikmenn hafa beðið eftir útgáfu Dragonflight með mikilli eftirvæntingu þar sem meira en hálft ár er liðið frá því að Blizzard greindi fyrst frá því að drekar myndu koma fram í sviðsljósið.

Dragonflight er níundi aukapakkinn í World of Warcraft á síðastliðnum átján árum. Ásamt nýjum ævintýrum með sterkri endurkomu drekanna í Azeroth var nýr spilanlegur kynþáttur, með nýjum klassa, kynntur til leiks.

Fljúga á vit ævintýranna

Í Dragonflight geta leikmenn spilað nýjan kynþátt, Dracthyr Evoker, og flogið á vit ævintýranna í hinum fornu Drekaeyjum.

Dracthyrar eru eins konar blendingar af manni og dreka en þetta er í fyrsta sinn sem að World of Warcraft-leikmenn geta breitt úr breiðum drekavængjunum og flogið af stað. Hann er einnig ólíkur öðrum að því leyti að hann er bundinn við sinn eigin klassa, Evoker.

Það þýðir að enginn annar kynþáttur getur spilað sem Evoker, og Dracthyrar geta heldur ekki spilað undir neinum öðrum klassa.

Leikmenn sem búa sér til Dracthyr Evoker hefja göngu sína á Vökuströndum, litríku og töfrandi umhverfi. Þar að auki hafa leikmenn fjöldann allan af möguleikum við hönnun Dracthyr-persónunnar sinnar, en hægt er að stilla nánast hvert einasta smáatriði.

Hér að neðan má sjá myndband sem sýnir örlítið frá Vökuströndum.

Metnar afþreyingar af borðinu

Nú þegar aukapakkinn er kominn í loftið verða Valor-, Conquest- og Honor-gjaldmiðlum breytt í gull. Metnar afþreyingar eins og Mythic Lykilsteina-dýflissur, metnir vígvellir (e. rated battlegrounds) og einstokk (e. solo shuffle) verða gerðar óaðgengilegar. 

Hins vegar verður enn hægt að sækja hefðbundnar dýflissur, handahófskennda vígvelli, Mythic-ferðir án lykilsteina og fleira.

Fyrsta tímabil leiksins fer af stað þann 13. desember en nánar um útgáfu leiksins má lesa í tilkynningu frá Blizzard.

Mæla sér mót í Kópavogi

Vert er að nefna að sérstakt samfélagskvöld fyrir World of Warcraft-leikmenn á Íslandi fer fram í Arena í Kópavogi þann 1. desember.

Þá býðst öllum WoW-leikmönnum, nýjum sem eldri, að hittast og spila ýmist í Wrath of the Lich King eða Dragonflight.

Stafræn fegurðarsamkeppni

Eins verður haldin „transmog“-keppni en það er eins konar fegurðarsamkeppni milli persóna innan leikjar, þar sem þeir eru klæddir upp í herklæði. Sá sem klæðir sína persónu upp í flottustu herklæðin vinnur sér inn spilatíma í Arena.

Er þetta því tilvalið fyrir íslenska leikmenn til þess að þétta hópinn og kynnast hverjum öðrum betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka