Heldur nostalgíukvöld í Counter-Strike 1.6

Þórir Viðarsson, yfirþjálfari Arena í Kópavogi.
Þórir Viðarsson, yfirþjálfari Arena í Kópavogi. Ljósmynd/Arena

Tölvuleikurinn Counter-Strike er feykivinsæll hér á landi jafnt sem erlendis og hefur verið það í býsna mörg ár. Í næstu viku geta CS-spilarar gert sér glaðan dag þegar „nostalgíukvöld“ í Arena fer fram.

Þórir Viðarsson, einnig þekktur sem „TurboDrake“, er yfirþjálfari Arena en jafnframt mikill Counter-Strike-maður með flottan keppnisferil í þeim leik að baki.

Arena í Kópavogi.
Arena í Kópavogi. Ljósmynd/Arena

Hann efnir því til nostalgíukvölds í Arena á fimmtudaginn 23. febrúar þar sem spilað og keppt verður í Counter-Strike 1.6.

Rifja upp Skjálfta-tímana yfir mat

„Gaman væri að sjá sem flesta og rifja upp gömlu góða Skjálfta-tímana,“ segir í tilkynningu Arena en sérstök tilboð á spilatímum og á veitingastaðnum verða í boði yfir kvöldið.

Á heimasíðu Arena segir að stefnt sé að því að hittast klukkan 18:00 á veitingastaðnum Bytes en hann er staðsettur inni í rafíþróttahöllinni. Þá geta þeir sem vilja fengið sér að borða eða drekka meðan fólkið hópast saman og blandar geði hvort við annað.

Þátttakendum verður skipt upp í lið sem síðan keppa við hvort annað á móti sem verður sett af stað um kvöldið.

Hvattir til að hafa samband

Hafi áhugasamir einhverjar skemmtilegar hugmyndir fyrir kvöldið þá eru þeir hvattir til þess að hafa samband við Þóri sjálfan með því að senda á hann tölvupóst í netfangið thorir@arenagaming.is.

Nánar um viðburðinn má lesa með því að fylgja þessum hlekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert