Glæsikerrum fjölgar í Gran Turismo á morgun

Hermikappakstur í GTS Iceland er býsna vinsæll hér á landi …
Hermikappakstur í GTS Iceland er býsna vinsæll hér á landi en þar keppir fjöldi ökuþóra sín á milli. Grafík/GTS Iceland

Ökuþórarnir í Gran Turismo-samfélaginu á Íslandi geta brátt þanið nýjar vélar innanleikjar þar sem von er á nokkrum nýjum keppnisbifreiðum á morgun þegar leikurinn verður uppfærður.

Í færslu á Facebook-hóp samfélagsins kemur fram að leikmenn hafi komist að raun um hvers konar bifreiðum þeir eiga von á og hafði gagnasafnarinn Nenkai einnig staðfest það.

Glæsikerrur á götuna

Frá morgundeginum verður hægt að keyra Toyota Alphard Executive Lounge frá árinu 2019 ásamt Porsche 959 frá árinu 1987 og Porsche Carrera GTS (904) frá árinu 1964.

Þar að auki verður glæný Mazda3 X Burgundy Selection bíll frá árinu 2019 kynntur til leiks en það hefur einnig verið staðfest að Audi RS 5 Turbo DTM frá árinu 2019 fylgi þessum bílum á götur Gran Turismo á morgun.

Fílar fjölbreytta blöndu bifreiða

„Það er óhætt að segja að þetta sé fjölbreytt blanda af bílum, og ég fíla það!“ segir Guðfinnur Þorvaldsson, sem er gjarnan kallaður Guffi og situr m.a. í mótastjórn GTS Ísland, í færslu í Facebook-hópnum.

Hann segist þó persónulega vera spenntastur fyrir Audi DTM og 64' Carrera en með því að fylgja þessum hlekk er hægt að skoða myndir af nýju bílunum, nýjum brautum og lesa um hin uppfærsluatriðin.

mbl.is