McLaren úr leik í ár og sektað um 100 milljónir dollara

Fernando Alonso og Louis Hamilton, ökuþórar McLaren.
Fernando Alonso og Louis Hamilton, ökuþórar McLaren. AP

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA), var í þessu að tilkynna, að McLarenliðið hafi verið svipt stigum í keppni bílsmiða í ár vegna aðildar að máli sem snýst um njósnir hjá Ferrari. Þá er liðið sektað um 100 milljónir dollara, jafnvirði 6,4 milljarða króna. Niðurstaðan hefur engin áhrif á keppnina um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Verið var í þessu að staðfesta niðurstöðu íþróttaráðs FIA í blaðamannamiðstöðinni í Spa-Francorchamps í Belgíu. Frá 100 milljóna sektinni, sem er hin mesta í sögu akstursíþrótta, dragast tekjur sem McLaren hefði ella notið frá FOM, fyrirtæki Bernie Ecclestone, vegna sjónvarpsréttar sem heimsmeistari bílsmiða.

Sú upphæð er ekki gefin upp en hefði numið tugum milljóna dollara.

Með ákvörðun þessari er nær öruggt að titill bílsmiða komi í hlut Ferrari.

McLaren er eingöngu svipt stigum í ár, úr mótunum sem lokið er og er útilokað frá stigakeppni mótanna fjögurra sem eftir eru. Þá verður liðið að leggja fulla tæknilýsingu á 2008-bíl sínum fyrir FIA og á grundvelli hennar mun íþróttaráðið fyrst ákveða á fundi í desember hvort liðinu beri refsing á næsta ári.

Sambandið boðar útskýringar og rökstuðning fyrir refsingu sinni á morgun.

Vegna þeirrar ákvörðunar FIA að veita ökuþórum McLaren friðhelgi frá refsingu vegna málsins hefur ákvörðunin engin áhrif á keppnina um heimsmeistaratitil ökuþóra í ár, en hún stendur eiginlega einungis á milli ökumanna McLaren, Lewis Hamilton og Fernando Alonso.

Fari þeir með sigur af hólmi í einhverju mótanna fjögurra sem eftir eru vertíðar fær fulltrúi McLaren ekki að fylgja þeim á verðlaunapall, eins og venja er.

Að sögn FIA hefur ákvörðunin engin áhrif á stig sem önnur lið hafa unnið í ár, þ.e. stigum sem þau hafa unnið til þessa fjölgar ekki við sviptingu stiga af McLaren.

mbl.is

Bloggað um fréttina