64. ráspóll Hamiltons

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól Spánarkappakstursins í Barcelona. Annar varð Sebastian  Vettel á Ferrari, þriðji Valtteri Bottas á Mercedes og fjórði Kimi Räikkönen hjá Ferrari sem framan af lokatilraun sinni stefndi þráðbeint á pólinn.

Þetta er 64. póllinn sem Hamilton vinnur á ferlinum. Einum fleiri vann brasilíski ökumaðurinn Ayrton Senna á sínum tíma, en síðan er langt bil í Michael Schumacher.

Tíðindi tímatökunnar eru þó líklega þau að Fernando Alonso hjá McLaren endaði í sjöunda sæti eftir að hafa bætt sig hvað eftir annað loturnar þrjár út í gegn. Besti árangur McLaren í tímatökum til  þessa á árinu var 12. sæti. Enda fögnuðu fulltrúar Honda, sem smíðar vélarnar í McLarenbílana, sem Alonso hefði unnið ráspólinn.

mbl.is