Rannsókn lokið og Perez staðfestur sigurvegari

Sergio Perez fagnar eftir að hafa unnið í Singapúr í …
Sergio Perez fagnar eftir að hafa unnið í Singapúr í kvöld. AFP/Roslan Rahman

Ökuþórinn Sergio Perez sem keyrir fyrir Red Bull-liðið í Formúlu 1 hefur verið staðfestur sigurvegari í kappakstrinum sem var haldinn í Singapúr fyrr í kvöld.

Perez kom fyrstur í mark en rannsókn fór af stað hvort hann hefði brotið öryggisreglur í kappakstrinum. Niðurstaðan varð sú að hann fékk dæmda á sig fimm sekúndna refsingu og fær því að vera áfram sigurvegari.

Rannsóknin gekk út á það hvort Perez hefði tvisvar keyrt of nálægt öryggisbíl, annars vegar á hring númer 10 og hins vegar á hring númer 36.

Það var mikil rigning í aðdraganda kappakstursins í kvöld og því sleipt á akstursbrautinni. Perez sagði að bremsurnar og dekkin á bílnum hans hefðu ekki verið nægilega heit í bleytunni og þess vegna komst hann ekki lengra frá öryggisbílnum í fyrra skiptið.

Perez kom 7.595 sekúndum á undan Leclerc í mark og því er hann áfram sigurvegari þrátt fyrir að hafa hlotið fimm sekúndna refsingu. Leclerc hreppti annað sætið og Carlos Sainz þriðja sætið.

mbl.is