Menn verða að hafa eitthvað uppi í erminni

Eyjamenn hafa Íslandsmeistaratitil að verja þegar þeir mæta á KR-völlinn í dag og þeir geta líka orðið tvöfaldir meistarar í fyrsta sinn. Steinþór Guðbjartsson tók púlsinn á Bjarna Jóhannssyni, þjálfara ÍBV, fyrir lokaleik Íslandsmótsins. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara ÍBV, var jarðbundinn og raunsær, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær um leik KR og ÍBV í 18. og síðustu umferð Íslandsmótsins á KR-velli í dag. "Staðan er einfaldlega þannig að liðið sem sigrar verður Íslandsmeistari. Þó okkur nægi jafntefli er það mjög hæpin hugsun að hugsa þannig að jafntefli dugar því slíkt hefur reynst mönnum hættulegt hingað til og við ætlum ekki að falla í þá gryfju. Því leggjum við upp með það að slíkt má aldrei ná tökum á mönnum."

Krafa um titil

 Eyjamenn hafa verið sigursælastir íslenskra knattspyrnumanna undanfarin misseri en þó þekkt sé í íþróttaheiminum að oft sé erfiðara að örva margfalda sigurvegara til enn frekari dáða en aðra sagði Bjarni það ekki vandamál í sínum herbúðum. "KR er ekki eina liðið sem hefur tryggt sér Evrópusæti því ÍBV hefur gert það líka. Við höfum mikla reynslu af því að spila úrslitaleiki og karakter liðsins hefur dugað til þess hingað til. Þessir strákar, sem eru að spila, hafa unnið titla og ég á ekki von á öðru en að hugurinn sé eins nú. Fyrir svona leiki skiptir síðasti sólarhringurinn í undirbúningnum lykilmáli og ég vona að sú dagskrá sem við erum með í gangi nægi til að örva menn þannig að þeir mæti með réttu hugarfari í leikinn."
 Mikil spenna er í kringum leikinn en sú staðreynd að bæði lið hafa þegar tryggt sér Evrópusæti getur létt á spennunni innan vallar. "Það er hugsanlegt," sagði Bjarni. "Hins vegar er íþróttahjartað þannig í mönnum að margur vill meira og nú eiga menn í ÍBV möguleika á að vinna tvöfalt sem á að vera næg örvun."
 Gera má því skóna að leikmenn geri ávallt sitt besta en stuðningsmenn sætta sig yfirleitt ekki við annað en sigur og Bjarni sagði að krafan í Eyjum væri titill. "Það er krafa að við verðum meistarar, ekki síst þar sem við erum handhafar titilsins. Þetta er hlutur sem ég og leikmenn sitjum undir og verðum að takast á við."

Síðasti sólarhringurinn skiptir öllu

 Eyjamenn hafa unnið flesta leiki í deildinni og gert flest mörkin en þrátt fyrir sigra hafa þeir hikstað örlítið eftir bikarúrslitaleikinn, ekki nýtt færin sem skyldi. "Það er rétt. Við höfum ekki nýtt færin okkar rosalega vel en það háði okkur að Steingrímur Jóhannesson missti úr tvo leiki. Hann hefur verið okkar helsta vopn hvað hraða varðar og það er mikil ógnun af honum og kraftur í honum. Nú er hann kominn á fulla ferð aftur og ég vona að það sem miður fór í markaskorun í þessum leikjum blómstri á KR-vellinum."
 Undirbúningur Eyjamanna er á sömu nótum og þegar þeir hafa búið sig undir bikarúrslitaleik, en þeir fóru á Hótel Örk í Hveragerði í gær og verða þar fram að leik, sem hefst klukkan fjögur í dag. "Tilgangurinn með dvölinni í Hveragerði er að hafi gaman af sameiginlegri afþreyingu, þar sem við förum í stuttan og smellinn veiðitúr og höldum kvöldvöku daginn fyrir leik en svo er æft létt að morgni leikdags. Að þessu leyti er undirbúningurinn fábrugðinn því sem venjulegt er."

Fleiri áhorfendur góðs viti

 Samkvæmt tölum frá KSÍ hafa 716 áhorfendur verið á leikjum ÍBV að meðaltali í deildinni í sumar en gert er ráð fyrir um 5.000 manns á KR-völlinn. Bjarni sagði að ekkert nema gott væri að segja um umgjörðina. "Áhorfendur eru mjög nálægt vellinum hjá KR en við höfum leikið fyrir framan fleiri áhorfendur í bikarúrslitum undanfarin tvö ár á Laugardalsvellinum. Því held ég að umgjörðin og fjöldi áhorfenda hafi ekki úrslitaáhrif en það er einu sinni þannig að mjög gaman er að spila þegar svona margir áhorfendur eru. Það er líka gaman að sjá áhorfendatölur frá leikjum deildarinnar í sumar. Sérstaklega vegna neikvæðrar umræðu um fótboltann í vor þess efnis að gæðin væru ekki eins mikil og í fyrra og að þetta væri ár heimsmeistarakeppninnar. Þrátt fyrir þetta horfum við upp á að áhorfendur eru fleiri í ár en í fyrra og ég held að þessi endir á mótinu sýni að það að fara á völlinn er hluti af mannlífinu frekar en að sitja heima og horfa á þetta í sjónvarpinu. Ég held að þetta sé atriði sem úrvalsdeildarfélögin verða að velta fyrir sér. Að koma á miklu sterkari hefð í íslenskum fótbolta eins og með föstum leikdögum. Það hefur líka sýnt sig að bætt umgjörð kringum knattspyrnuvelli hjálpar mikið samanber stúkurnar á KR-vellinum og á Akranesi. Samt er ég mjög sáttur með fjölda áhorfenda hjá okkur í Eyjum því hann er hátt hlutfall af markaðnum."

Mikil spenna í allt sumar

 Eyjamönnum var spáð Íslandsmeistaratitlinum áður en keppni hófst en í spánni komu ÍA og KR skammt á eftir. Í neðstu sætum voru ÍR og Þróttur en Grindavík skammt fyrir ofan. Menn gerðu ráð fyrir spennandi keppni og sú hefur orðið á raunin.
 "Það sem stendur upp úr í ár er að deildin hefur verið jafnari en áður og mikil spenna hefur verið ríkjandi í allt sumar. Örugglega þarf að leita langt aftur í tímann til að sjá að úrslit á toppi og botni hafi ráðist í síðustu umferð. Annað atriði er að þrátt fyrir að margir leikmenn hafi horfið á brott eftir keppnina í fyrra hafi deildin verið á ótrúlega góðum dampi. Menn greinir ávallt á um gæði knattspyrnunnar en ég held að deildin hafi spilast vonum framar."
 Stutt er í viðureign ársins en hvað er efst í huga þjálfara meistaranna fram að þeirri stundu þegar Eyjólfur Ólafsson flautar til leiks?
 "Ég hef spilað leikinn í huganum margoft og sjálfsagt verður efst í huga að vera búinn að taka allar ákvarðanir sem þarf að taka áður en leikurinn hefst miðað við allar hugsanlegar stöður sem geta komið upp í leiknum. Sú staða getur komið upp að menn verða annaðhvort að sækja eða verjast eins og gengur og þá verða menn að hafa eitthvað uppi í erminni. Báðir þjálfararnir vita mjög mikið um mótherjana en það verður að koma í ljós hvort menn eiga tromp inni eða ekki."

Hátíð

 Fyrir tveimur árum var úrslitaleikur á Akranesi og síðan hefur sá leikur og umgjörð verið ofarlega í huga manna en gera má ráð fyrir ámóta andrúmslofti á KR-vellinum í dag.
 "Ég veit að mikil spenna verður í lofti, ekki bara í Vesturbænum heldur um víðan völl, því úrslit allra leikja skipta verulegu máli. Ég vona bara að fólk njóti knattspyrnunnar, að þetta verði hátíðisdagur hennar."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert