Collins vill að Berti Vogt hætti með skoska landsliðið

Fyrrum landsliðsmaður Skota í knattspyrnu, John Collins, er ekki í vafa um að Berti Vogts landsliðþjálfari Skota í knattspyrnu eigi að taka pokann sinn og hætta eftir 4:0 tap liðsins gegn Wales í Cardiff s.l. miðvikudag. Collins segir skoska liðið áhugalaust og það sé greinilegt að Vogts hafi ekki það góð tök á móðurmáli leikmanna liðsins að hann nái til þeirra með sinn boðskap. Collins lék stórt hlutverk í skoska liðinu á HM í Frakklandi árið 1998 en hann lék með Hibernian, Celtic og franska liðinu Mónakó á sínum ferli.

"Í viðtölum fyrir og eftir leiki er Vogts ekki sannfærandi og það sést á leik liðsins að hann er ekki rétti maðurinn í þetta starf. Hann nær ekki til leikmanna og skoska liðið er ekki í framför undir hans stjórn," segir Collins við BBC. "Á árum áður vorum við ávallt með á stórmótum og menn lögðu sig fram sem lið. Það er ekki að gerast í dag hjá skoska landsliðinu," segir Collins en Skotar hafa fengið á sig 10 mörk í síðustu tveimur landsleikjum. Vogts segir að hann hafi ekki hug á því að hætta með liðið að svo stöddu og markmiðið sé að ná í úrslit á HM sem fram fer í heimalandi hans, Þýskalandi, árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert