Magni ráðinn þjálfari Brommapojkarna

Magni Fannberg, nýráðinn þjálfari Brommapojkarna.
Magni Fannberg, nýráðinn þjálfari Brommapojkarna.

Magni Fannberg hefur verið ráðinn þjálfari sænska knattspyrnuliðsins Brommapojkarna frá Stokkhólmi, sem féll á dögunum úr úrvalsdeild karla þar í landi eftir tveggja ára dvöl. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Magni, sem er 35 ára gamall, hefur þjálfað unglingalið félagsins með góðum árangri undanfarin ár en hann tekur nú við aðalliðinu af Stefan Billborn sem hætti störfum eftir lokaleikinn í úrvalsdeildinni fyrr í þessum mánuði.

„Þetta er mikill heiður og starfið leggst mjög vel í mig. Ég veit að hverju ég geng, þekki félagið út og inn og alla í kringum það eftir að hafa verið hérna í fimm og hálft ár,“ sagði Magni við mbl.is í morgun. Hann var þá á leið á fund með leikmönnum liðsins, sem hófst núna klukkan níu að íslenskum tíma, þar sem ráðning hans er formlega tilkynnt en Magni stýrir síðan fyrstu æfingunni á eftir.

Hann sagðist vel meðvitaður um að verkefnið væri erfitt og það gæti þurft umtalsvert átak til að snúa við gengi liðsins. „Það er vissulega erfitt að taka við liði sem hefur fallið um deild því slíku fylgir alltaf tekjutap og sparnaður. Hér eru margir með lausa samninga og við erum ekki með nema 12-13 leikmenn klára í augnablikinu, en stefnan er að byggja upp á ungum og uppöldum leikmönnum. Í núverandi hópi eru 4-5 leikmenn sem ég hef verið með í unglingaliðunum hjá mér en þeim mun örugglega fjölga ef allt gengur eðlilega fyrir sig. Hérna hefur alltaf verið góð uppbygging, og síðan hafa verið fengnir til félagsins reyndir leikmenn sem hafa verið að hætta hjá erlendum liðum. Eflaust verður eitthvað gert af því áfram ef réttu mennirnir bjóðast, en nú verður í enn meiri mæli en áður byggt á heimastrákum,“ sagði Magni.

„En ég hefði aldrei tekið þetta að mér ef ég væri ekki handviss um að við gætum snúið blaðinu við á ný. Við höfum sett stefnuna á að koma liðinu aftur upp í úrvalsdeildina á þremur árum og ég hef fulla trú á þessu verkefni. Brommapojkarna stendur betur að vígi en mörg lið sem hafa misst fótfestuna í úrvalsdeildinni á undanförnum árum. Stórir klúbbar eins og Örgryte, Trelleborg, Öster og Landskrona leika í þriðju deild á næsta tímabili. Það sem við höfum framyfir flest önnur félög er hve mikið við höfum alið upp af ungum leikmönnum og fyrir vikið þurfum við ekki að sækja eins marga annað. Það eru mikil verðmæti til staðar innan félagsins,“ sagði Magni Fannberg.

Hann þjálfaði lið Fjarðabyggðar í 1. deild árið 2008 en var áður við þjálfun hjá Grindavík, Val og HK, lengst hjá HK þar sem hann þjálfaði síðast 2. flokk karla árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert