Var ekki tilbúin að fórna virku lífi

Guðný Björk Óðinsdóttir
Guðný Björk Óðinsdóttir Eva Björk Ægisdóttir

„Ég get hlaupið, ég get synt, ég get farið í göngutúra en veit að ein æfing, einn leikur, ein tækling getur eyðilagt allt fyrir mér og ég var ekki tilbúin að fórna virku lífi fyrir það,“ sagði Guðný Björk Óðinsdóttir landsliðskona í knattspyrnu við blaðamann mbl.is í dag en hún tilkynnti seint í gærkvöldi að hún væri búin að leggja skóna á hilluna, aðeins 26 ára að aldri.

Guðný hefur gengið í gegnum meira en flestir aðrir knattspyrnumenn á ferlinum. Hún sleit krossband í hné samtals fjórum sinnum en alltaf kom hún til baka þrátt fyrir þá gríðarlega erfiðu endurhæfingu sem fylgir slíkum meiðslum.

Ákvað sig nóttina fyrir aðgerðina

„Ég hafði aldrei hugsað um að hætta þó að fólk hafi verið að tala um það. Það var aldrei inni í myndinni. Allan minn feril hefur fólk komið til mín og sagt við mig, hvernig geturu verið bún að gera þetta þrisvar og fjórum sinnum,“ sagði Guðný.

Meiðslin sem hún varð fyrir í síðasta mánuði voru kornið sem fyllti mælinn en hún sneri upp á hnéð og þurfti á lítilli aðgerð að halda til þess að fjarlægja skrúfu og málmplötur í hnénu eftir allt sem á undan hafði gengið.

Fyrstu hugsanir Guðnýjar voru þó að fara aðgerðina og halda áfram.

„Fyrst hugsaði ég, „já frábært, ég tek hana bara núna, svo kemur pása í lok maí og við byrjun ekki aftur fyrr en í júlí. Þá ég á tvo mánuði til þess að koma mér aftur í toppstand,“ sagði Guðný en hugur hennar fór á flug nóttina fyrir aðgerðina.

„Í hvert skipti sem þú opnar hnéð þá eykur það líkurnar á að fá vandamál seinna. Þá fór ég að hugsa mig um hvort það væri rétt að fara í þessa aðgerð, sagði Guðný og hélt áfram.

„Ég var efins og hugsaði með mér, „ég get gert allt“ en ég ákvað að fara í hana af því að þetta var lítil aðgerð, en var þá búin að taka ákvörðun um að ég væri búin að spila minn síðasta leik,“ sagði Guðný.

„Safnað fyrir hjólastólnum“

Þegar Guðný sleit krossband í fjórða skiptið árið 2013 voru mjög skiptar skoðanir um það hvort hún ætti að hætta alveg í fótboltanum. Sumir gengu jafnvel svo langt að stofna styrktarsíðu fyrir Guðnýju til þess að kaupa nýjan hjólastól.

„Þegar ég sleit krossband í fjórða skiptið árið 2013 fékk ég að heyra mjög mismunandi hliðar. Sumar sögðu að ef ég ætla í fótbolta aftur þá geti ég alveg eins keypt hjólastólinn strax. Svo voru aðrir sem hvöttu mig áfram og sögðu, jú, þú getur þetta ef þú vilt það,“ sagði Guðný sem segist hafa tekið mjög stóra ákvörðun um að halda áfram árið 2013.

„Ég tók mjög stóra ákvörðun um að halda áfram, þrátt fyrir að sumir væru búnir að segja þetta við mig. Það var meira að segja búið að opna Facebook-síðu fyrir mig sem hét, „Hjálpið okkur að safna fyrir hjólastól fyrir Guðnýju“. Til þess að reyna að útskýra fyrir mér að þetta væri ekki skynsamleg ákvörðun, en ég mig langaði meira,“ sagði Guðný.

Guðný segist ætla að taka sumarið í að jafna sig á þessari ákvörðun. Hún verður áfram í Svíþjóð næstu misseri en hún útskrifast sem lífeindafræðingur í vor og er þegar byrjuð í framhaldsnámi. Þrátt fyrir að lífið hafi nánast bara verið fóbolti hjá þessari mögnuðu knattspyrnukonu hingað til, þá gat hún þó að lokum sammælst blaðmanni um að fótboltinn væri ekki lífið.

„Hann er það ekki, þó hann hafi verið það stóran hluta í lífi mínu,“ sagði Guðný Björk.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir í landsleik í …
Margrét Lára Viðarsdóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir í landsleik í Kórnum í síðasta mánuði. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka