Juventus fór létt með Emil og félaga

Emil í baráttu við Sami Khedira, miðjumann Juventus, í leiknum ...
Emil í baráttu við Sami Khedira, miðjumann Juventus, í leiknum í dag. AFP

Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Hellas Verona þegar liðið tapaði, 3:0, fyrir Juventus í 18. umferð ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu í dag. Hann var tekinn af leikvelli þegar átta mínútur voru til leiksloka.

Gengi Emils og félaga hefur verið afleitt á tímabilinu en liðið er í neðsta sæti deildarinnar með 8 stig og á enn eftir að vinna leik. Juventus er hins vegar á mikilli siglingu en liðið skaust upp í 2. sætið með sigrinum.

Sóknarmaðurinn Paulo Dybala kom heimamönnum í Juventus yfir á 8. mínútu og á síðustu mínútu fyrri hálfleiks bætti Leonardo Bonucci marki við fyrir heimamenn. Simone Zaza gulltryggði sigur Juventus með marki tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. 

mbl.is