Knattspyrna eykur sjálfstraust stúlkna

Glatt á hjalla hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu.
Glatt á hjalla hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný rannsókn sýnir fram á að knattspyrna hefur betri áhrif á sjálfstraust og sjálfsálit stúlkna en aðrar íþróttir.

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA kynnti niðurstöður rannsóknar í dag þar sem 4 þúsund stúlkur tóku þátt. Rannsökuð voru áhrif knattspyrnu á sálræna hlið stúlkna og ungra kvenna í Evrópu á aldrinum 13-17 ára.

Það sem sérstaklega var tekið eftir voru áhrif knattspyrnu á sjálfstraust, sjálfsálit, almenna líðan, samheldni, hvatningu og lífsgæði. Var það borið saman við aðrar vinsælar íþróttir, en þátttakendur komu frá Danmörku, Englandi, Þýskalandi, Spáni, Póllandi og Tyrklandi.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þrátt fyrir að kvennaknattspyrnan sé komin misjafnlega langt á veg í Evrópu hefur íþróttin svipuð áhrif hvað varðar sjálfsálit kvenna. Mest afgerandi niðurstöðurnar voru á þá leið að stúlkur í knattspyrnu eru með afgerandi meira sjálfstraust en þær sem ekki eru í íþróttum. Þær skora einnig hærra en þær sem eru í öðrum íþróttum.

Helstu niðurstöður eru sem hér segir:

*80% unglingsstúlkna sýndu merki um meira sjálfstraust í gegnum knattspyrnulið sitt á móti 74% sem æfa aðrar íþróttir.
*54% unglingsstúlkna í knattspyrnu svöruðu því játandi að þær hugsa minna um hvað öðrum finnst um þær vegna íþróttarinnar, samanborið við 41% þeirra sem æfa aðrar íþróttir.
*58% unglingsstúlkna í knattspyrnu á aldrinum 13-17 ára sögðust hafa komist yfir lágt sjálfsálit vegna þess að þær spiluðu knattspyrnu, samanborið við 51% þeirra sem æfa aðrar íþróttir.
*48% sögðust ekki vera eins óframfærar (e. self-conscious) og áður eftir að þær byrjuðu að spila knattspyrnu, samanborið við 40% þeirra sem æfa aðrar íþróttir.

Nánar má lesa um rannsóknina HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert