Ari Freyr á skotskónum í Belgíu

Ari Freyr Skúlason í leik með landsliðinu.
Ari Freyr Skúlason í leik með landsliðinu. AFP

Ari Freyr Skúlason og liðsfélagar hans í belgíska liðinu Lokeren gerðu 2:2-jafntefli á heimavelli gegn Oostende í umspilsriðli belgísku knattspyrnunnar um sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili.

Lokeren komst yfir í tvígang en Ari skoraði fyrsta mark leiksins á 26. mínútu áður en Emmanuel Banda jafnaði metin fyrir gestina. Marko Miric kom Lokeren aftur yfir og virtist sigurinn nánast í höfn þegar leikmaður Oostende fékk rautt spjald og Lokeren fékk vítaspyrnu, tíu mínútum fyrir leikslok.

Sú spyrna fór þó forgörðum og gestirnir jöfnuðu metin skömmu síðar eða á 82. mínútu með marki frá Joseph Akpala sem var nýkominn inn á sem varamaður.

Þrátt fyrir þetta svekkjandi jafntefli er Lokeren enn á toppi sex liða riðilsins í umspilinu með átta stig eftir fjóra leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert