Of ungur til að vera maður leiksins

Christian Pulisic fór illa með Liverpool í gær en hafði …
Christian Pulisic fór illa með Liverpool í gær en hafði ekki aldur til að vera maður leiksins engu að síður. AFP

Táningurinn Christian Pu­lisic lék á als oddi fyrir Dortmund í 3:1-sigri á Liverpool í æfingaleik á alþjóðlega knattspyrnumótinu í Bandaríkjunum í gærkvöldi.

Pulisic skoraði tvö mörk, fór ótt og títt illa með varnarmenn Liverpool og gerði svo sannarlega nóg til að vera valinn maður leiksins, þ.e.a.s. ef hann væri kominn á aldur.

Bandaríkjamaðurinn er nefnilega bara 19 ára og nafnbótin maður leiksins ásamt meðfylgjandi verðlaunum eru kostuð af bjórframleiðandanum Heineken. Einstaklingur sem ekki hefur náð 21 árs aldri í Bandaríkjunum má samkvæmt lögum ekki neyta áfengis og urðu verðlaunin því að renna til Virgil Van Dijk, varnarmanns Liverpool.

Djjk skoraði eina mark enska liðsins og var í vörninni sem fékk á sig þrjú en hann er 27 ára og því vel til fallinn að vinna til Heineken-verðlaunanna.

Virgil van Dijk í leiknum í gær. Sennilega fyrsti knattspyrnumaðurinn …
Virgil van Dijk í leiknum í gær. Sennilega fyrsti knattspyrnumaðurinn til að vera valinn besti maður leiksins sökum aldurs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert