Hjörtur og félagar náðu í góðan sigur

Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Burnley

Hjörtur Hermannsson og liðsfélagar hans í danska liðinu Brøndby gerðu góða ferð til Serbíu og unnu 2:0-útisigur á Spartak Subotica í fyrri leik liðanna í Evrópudeildinni í fótbolta í kvöld. Hjörtur lék allan leikinn í vörninni hjá Brøndby.

Jóhann Berg Guðmundsson lék fyrstu 62 mínúturnar í markalausu jafntefli enska liðsins Burnley og İstanbul Başakşehir, en leikið var í höfuðborg Tyrklands. Tyrkneska liðið var mun sterkari aðilinn, en vörn Burnley stóð vel. 

Böðvar Böðvarsson var allan tímann á varamannabekk pólska liðsins Jagiellonia sem þurfti að sætta sig við 1:0-tap á heimavelli fyrir Gent frá Belgíu. Matthías Vilhjálmsson var sömuleiðis allan tímann á varamannabekk Rosenborg sem vann Cork City frá Írlandi á útivelli, 2:0. 

Orri Sigurður Ómarsson var ekki í leikmannahópi Sarpsborgar sem gerði 1:1-jafntefli á heimavelli á móti Rijeka frá Króatíu. Síðari leikir einvígjanna fara fram eftir viku. 

mbl.is