Guðbjörg lifði af leiktíðina með verkjalyfjum

Guðbjörg Gunnarsdóttir gæti misst af fyrstu landsleikjunum undir stjórn nýs …
Guðbjörg Gunnarsdóttir gæti misst af fyrstu landsleikjunum undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Jóns Þórs Haukssonar, en ekki er ljóst hvenær þeir verða. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Núna fæ ég tímann sem ég þarf svo nauðsynlega á að halda til að gera við líkamann minn,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, sem glímt hefur við meiðsli nánast allt þetta ár.

Guðbjörg átti sinn þátt í að halda Djurgården áfram í efstu deild Svíþjóðar en markvörðurinn hélt til að mynda hreinu í 2:0-sigri á Vittsjö 14. október, þremur vikum eftir að hafa farið úr axlarlið í leik gegn meisturum Piteå.

Það eru þó ekki axlarmeiðslin sem hafa plagað Guðbjörgu mest heldur meiðsli í hásin, sem hún kveðst hafa fundið fyrir strax á síðasta ári, eftir EM í Hollandi í fyrrasumar. Hún hefur neyðst til að nota verkjalyf til að geta spilað á allri nýafstaðinni leiktíð og mun þurfa næstu mánuði til að jafna sig.

Guðbjörg greinir frá meiðslum sínum á Twitter þar sem hún skrifaði eftirfarandi pistil, í lauslegri þýðingu:

„Eins og sum ykkar vita þá hef ég glímt við meiðsli svo að segja allt þetta tímabil. Ég fór að finna fyrir miklum sársauka í hásin þegar eftir EM í fyrra. Í ár hefur þetta bara versnað og ég hef rétt „lifað vikurnar af“ með því að nota verkjalyf. Þetta varð svo slæmt að ég gat varla gengið eðlilega án þeirra. Ég fór svo í MRI-skanna í sumar og var tjáð að það eina sem ég gæti gert væri að fara í aðgerð. Ég fékk sterasprautu og lék það sem eftir var af leiktíðinni eins vel og ég gat. Á morgun fer ég í flókna aðgerð á hásin og beinum. Endurhæfingin verður ekki auðveld. Ég ætla mér að koma til baka sterkari en nokkru sinni fyrr í öllum líkamanum. Ég veit ekki hvenær það verður, en það verður eftir mánuði en ekki vikur. Ég lít á þetta sem tækifæri til að byggja upp allan líkamann, sérstaklega eftir að hafa farið úr vinstri axlarlið í leik gegn Piteå fyrir nokkrum vikum. Núna fæ ég tímann sem ég þarf svo nauðsynlega á að halda til að gera við líkamann minn! Vonandi sný ég aftur fyrr en seinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert