Samúel hafði betur gegn Arnóri

Samúel Kári Friðjónsson átti góðan leik.
Samúel Kári Friðjónsson átti góðan leik. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Viking vann sterkan 2:0-útisigur á Lillestrøm er liðin mættust í efstu deild Noregs í fótbolta í dag. Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Viking og átti mjög góðan leik. Arnór Smárason lék síðasta kortérið með Lillestrøm. 

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn með Vålerenga er liðið mætti hans gömlu félögum í Rosenborg á útivelli. Heimsóknin á gamla heimavöllinn reyndist erfið fyrir Matthías og Rosenborg fór með 3:0-sigur af hólmi. 

Oliver Sigurjónsson var allan tímann á varamannabekk Bodø/Glimt í 2:0-sigri á Strømsgodset og Dagur Dan Þórhallsson var allan tímann á varamannabekk Mjølndalen í 1:1-jafntefli við Kristiansund á heimavelli. 

mbl.is