Mourinho að snúa aftur?

José Mourinho gæti snúið aftur í stjórastólinn hjá Real Madrid.
José Mourinho gæti snúið aftur í stjórastólinn hjá Real Madrid. AFP

Pressan eykst á Zinedine Zidane, knattspyrnustjóra Real Madrid, þessa dagana samkvæmt spænskum fjölmiðlum. Real Madrid þurfti að sætta sig við 1:0-tap fyrir Mallorca á útivelli í spænsku 1. deildinni um helgina og situr liðið nú í öðru sæti deildarinnar með 18 stig eftir fyrstu níu umferðirnar.

Real Madrid er stigi á eftir Barcelona en Real hefur gert þrjú jafntefli til þessa í deildinni. Þá hefur gengi liðsins í Meistaradeildinni ekki verið gott en liðið steinlá á útivelli gegn PSG í fyrstu umferð riðlakeppninnar og rétt tókst að bjarga 2:2-jafntefli gegn belgíska liðinu Club Brugge á heimavelli í annarri umferðinni.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að nokkrir stjórnarmenn Real Madrid séu búnir að missa trúna á Frakkann sem gerði liðið þrívegis að Evrópumeisturum áður en hann lét af störfum. Hann var svo ráðinn aftur til félagsins þegar Santiago Solari var rekinn í mars 2019. Portúgalinn José Mourinho þykir líklegastur til að taka við Real Madrid samkvæmt spænskum miðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert