United gríðarlega sannfærandi á heimavelli

Anthony Martial fagnar marki sínu.
Anthony Martial fagnar marki sínu. AFP

Manchester United vann afar sannfærandi 3:0-sigur á Partizan á heimavelli sínum í Evrópudeildinni í fótbolta í kvöld. Mörkin hefðu getað orðið fleiri á meðan Partizan skapaði sér nánast ekki neitt. 

Mason Greenwood kom United á bragðið á 21. mínútu og Anthony Martial bætti við marki tólf mínútum síðar og var staðan í hálfleik 2:0. Marcus Rashford gulltryggði auðveldan sigur snemma í seinni hálfleik. 

United er í toppsæti riðilsins með tíu stig, tveimur stigum meira en AZ Alkmaar. Partizan er í þriðja sæti með fjögur stig. 

Wolves vann dramatískan 1:0-sigur á Slovan Bratislava frá Slóvakíu á heimavelli. Raúl Jiménez skoraði sigurmark enska liðsins í uppbótartíma. Braga, sem vann 3:1-sigur á Besiktas er í toppsæti riðilsins með tíu stig og Wolves í öðru sæti með níu. 

Arnór Sigurðsson lék allan leikinn og Hörður Björgvin Magnússon fyrstu 81 mínútuna fyrir CSKA Moskvu sem gerði markalaust jafntefli við Ferencváros í Búdapest. Stigið er það fyrsta sem CSKA fær og er ólíklegt að liðið fari upp úr riðlinum. 

Úrslitin úr leikjunum í Evrópudeildinni sem hófust klukkan 20: 

Borussia Mönchenbladbach - Roma 2:1
Espanyol - Ludogorets 6:0
Ferencváros - CSKA Moskva 0:0
Feyenoord - Young Boys 1:1
Manchester United - Partizan 3:0
Oleksandria - Saint-Étienne 2:2
Rangers - Porto 2:0
Braga - Besiktas 3:1
Wolfsberger - Basaksehir 0:3
Wolfsburg - Gent 1:3
Wolves - Slovan Bratislava 1:0

mbl.is