Yfir 40 andlát má rekja til leiks Liverpool og Atlético

Leikmenn beggja liða stilla sér upp fyrir leikinn örlagaríka.
Leikmenn beggja liða stilla sér upp fyrir leikinn örlagaríka. AFP

Heilbrigðisyfirvöld á Bretlandi telja sig geta rakið 41 andlát af völdum kórónuveirunnar þar í landi til leiks Liverpool og Atlético Madríd á Anfield í Meistaradeild Evrópu 12. mars síðastliðinn.

Rúmlega 50 þúsund áhorfendur mættu á Anfield til þess að sjá leikinn sem var jafnframt síðasti stóri kappleikurinn á Englandi áður en yfirvöld þar í landi bönnuðu hópsamkomur og íþróttaviðburði vegna útbreiðslu veirunnar. Í frétt Sunday Times í dag segir að greiningarhópur innan heilbrigðisþjónustunnar telur að 41 andlát vegna veirunnar megi rekja til leiksins örlagaríka á Anfield.

Yfir þrjú þúsund stuðningsmenn spænska liðsins ferðuðust með liðinu til Englands og hefur borgarstjóri Madríd áður sagt það mistök að leyfa það. 253 þúsund manns hafa smitast á Spáni og þar af 28 þúsund látið lífið. Á Englandi eru staðfest smit um 257 þúsund en rúmlega 36 þúsund hafa fallið frá.

mbl.is