Hægt að fullyrða að þetta sé besta félagslið í heimi

Sara Björk Gunnarsdóttir samdi við Lyon í gær.
Sara Björk Gunnarsdóttir samdi við Lyon í gær. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, skrifaði í gær undir tveggja ára samning við franska stórveldið Lyon. Hefur Lyon verið besta félagslið heims undanfarin ár og Evrópumeistari síðustu fjögurra ára. Þá er liðið með gríðarlega yfirburði í Frakklandi og var franski meistaratitillinn í vor sá fjórtándi í röð. Sara kemur til Lyon frá Wolfsburg, þar sem hún vann sjö titla á fjórum árum og fór í úrslit Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum. Þar tapaði Wolfsburg einmitt fyrir Lyon.

„Mér fannst vera kominn tími til að yfirgefa Wolfsburg eftir fjögur ár. Ég vildi fara að gera eitthvað annað en samt halda mig á hæsta stigi fótboltans. Lyon hafði heyrt í mér síðustu tvö ár og sýndi mér enn áhuga, svo að mér fannst þetta kjörið tækifæri til að halda áfram að bæta mig og vera áfram að spila með þeim allra bestu,“ sagði Sara í samtali við Morgunblaðið eftir að félagsskiptin voru kynnt.

Landsliðsfyrirliðinn fullyrðir að hún sé að ganga til liðs við besta félagslið heims og að árangur síðustu ára tali sínu máli. „Við getum alveg fullyrt það miðað við alla titlana sem liðið hefur unnið. Lyon hefur unnið Meistaradeildina síðustu fjögur ár, og oftast allra, og svo deildina síðustu fjórtán ár og það er hægt að fullyrða að þetta sé skref fram á við. Væntingarnar eru miklar enda liðið búið að halda sér á toppnum þetta lengi. Hér vilja allir alla þá titla sem eru í boði og það var líka þannig hjá Wolfsburg. Lyon vill fylgja eftir því sem félagið hefur unnið síðustu ár og þá eru miklar væntingar.“

Ótrúlega sterkur hópur

Leikmannahópur Lyon er ótrúlega sterkur og ljóst að Sara verður með heimsklassa samherja í hverri stöðu hjá franska liðinu. Englendingurinn Lucy Bronze, sem var valin besta knattspyrnukona Evrópu á síðasta ári, leikur með liðinu, eins og norski markahrókurinn Ada Hegerberg sem var í öðru sæti í valinu. Amandine Henry, fyrirliði franska landsliðsins, varð í þriðja sæti í valinu og leikur hún sömuleiðis með liðinu. Þrír bestu leikmenn Evrópu á síðasta ári verða því allir liðsfélagar Söru hjá Lyon. Þá er Sarah Bouhaddi, aðalmarkvörður franska landsliðsins, í markinu. Sara er sérstaklega spennt að spila með þýsku landsliðskonunni Dzenifer Marozsán og hini frönsku Eugénie Le Sommer. „Það eru heimsklassa leikmenn í hverri stöðu og á miðjunni eru t.d. Dzenifer Marozsán og Eugénie Le Sommer. Það er hægt að telja upp allt liðið en þetta eru tveir leikmenn sem ég er mjög spennt að fá að spila með,“ sagði Sara.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert