Ótrúlegur sigur Færeyinganna í Evrópudeildinni

Færeyingarnir fagna einu markanna á Tórsvelli í kvöld.
Færeyingarnir fagna einu markanna á Tórsvelli í kvöld. Ljósmynd/Sverri Egholm

Færeyska knattspyrnuliðið KÍ frá Klaksvík er öllum á óvart komið í umspilið um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA eftir magnaðan sigur á hinu fornfræga liði Dinamo Tbilisi frá Georgíu í Þórshöfn í kvöld.

KÍ gjörsigraði Georgíumennina, 6:1, eftir að staðan var 1:0 í hálfleik, og Páll Klettskarð var hetja heimamanna en hann skoraði þrennu í leiknum. Deni Pavlovic, Patrik Johannesen og Jonn Johannessen skoruðu hin þrjú mörkin en Joannes Bjartalið lagði upp tvö markanna.

Þetta er gríðarlega stór sigur fyrir færeyska knattspyrnu og fleytir landinu enn ofar á styrkleikalista félagsliða hjá UEFA.

KÍ mun mæta annaðhvort Sheriff frá Moldóvu eða Dundalk frá Írlandi umspilsleiknum um sæti í riðlakeppninni.

Færeyingar áttu tvö lið í 3. umferðinni í kvöld. B36 frá Þórshöfn stóð sig með sóma en tapaði 3:1 fyrir CSKA Sofia í Búlgaríu eftir að hafa minnkað muninn í 2:1 í seinni hálfleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert