Fimm á blaði hjá Barcelona

Xavi er uppalinn hjá Barcelona og er í guðatölu hjá …
Xavi er uppalinn hjá Barcelona og er í guðatölu hjá stuðningsmönnum félagsins. AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona á Spáni, þykir valtur í sessi þessa dagana en Barcelona hefur ekki byrjað tímabilið vel.

Liðið tapaði 0:3-fyrir Bayern München á fyrstu umferð Meistaradeildarinnar á Nývangi á Spáni en Börsungar áttu ekki skot á markið í leiknum.

Þá er liðið í áttunda sæti spænsku 1. deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar með 8 stig, sex stigum minna en topplið Atlético Madrid, en Barcelona á tvo leiki til góða á Atlético.

Koeman tók við þjálfun liðsins í ágúst 2020 en Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum og hafa margir góðir leikmenn yfirgefið félagið að undanförnu, þar ber hæst að nefna Lionel Messi og Antoine Griezmann.

Fjölmiðlamaðurinn Gerard Romero, sem sérhæfir sig í málefnum Barcelona, segir að félagið íhugi nú að láta Koeman fara og að forráðamenn Barcelona séu með fimm nöfn á blaði yfir hugsanlega arftaka. 

Xavi, fyrrverandi leikmaður Barcelona, er sagður efstur á blaði og þá eru þeir Phillip Cocu, Andrea Pirlo, Antonio Conte og Joachim Löw einnig á blaði hjá Börsungum.

mbl.is