Síðustu 20 mínútunum frestað til morguns

María Þórisdóttir og samherjar í norska landsliðinu voru komnar í …
María Þórisdóttir og samherjar í norska landsliðinu voru komnar í 9:0 þegar leikurinn var stöðvaður. mbl.is/Sindri Sverrisson

Ekki reyndist unnt að ljúka leik Armeníu og Noregs í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Jerevan í dag.

Rétt eftir að norska liðið komst í 9:0 á 69. mínútu leiksins ákvað dómari leiksins að láta staðar numið þar sem skyggni á vellinum var nánast ekkert vegna þoku.

Armenar, sem töpuðu 19:0 fyrir Belgíu á föstudaginn, héldu norska liðinu í skefjum fyrsta hálftímann en eftir fyrsta markið á 31. mínútu voru þau orðin níu talsins 38 mínútum síðar.

Síðustu 20 mínútur leiksins verða spilaðar í fyrramálið klukkan ellefu að staðartíma i Jerevan, eða klukkan sjö að morgni að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert