Landsliðsmaður lést í bílslysi

Ahmet Yilmaz Calik stillir sér upp fyrir landsleik með Tyrklandi …
Ahmet Yilmaz Calik stillir sér upp fyrir landsleik með Tyrklandi árið 2016. Ljósmynd/Wikipedia

Tyrkneski knattspyrnumaðurinn Ahmet Yilmaz Calik lést í bílslysi í morgun. Hann var aðeins 27 ára gamall.

Calik var á mála hjá Konyaspor, sem er um þessar mundir ansi óvænt í öðru sæti tyrknesku 1. deildarinnar, ekki síst vegna góðrar frammistöðu hans á tímabilinu.

Hann missti stjórn á bifreið sinni í höfuðborginni Ankara snemma í morgun og skall á vegriði með þeim afleiðingum að hann lést. Samkvæmt tyrkneskum miðlum var Calik einn á ferð í bílnum.

Calik, sem lék sem miðvörður, ólst upp hjá Genclerbirligi og eftir að hafa staðið sig vel þar var hann keyptur til stórveldisins Galatasaray, þar sem hann varð Tyrklandsmeistari í tvígang og bikarmeistari einu sinni. Hann gekk svo í raðir Konyaspor sumarið 2020.

Á ferlinum lék Calik átta landsleiki fyrir Tyrkland og skoraði í þeim eitt mark. Leikirnir átta komu á árunum 2015 til 2017 og var hann í lokahópi Tyrkja á EM 2016 í Frakklandi, þó hann hafi ekki komið við sögu á mótinu.

mbl.is