Sara Björk Evrópumeistari í annað sinn

Sara Björk lyftir bikarnum í Tórínó í kvöld.
Sara Björk lyftir bikarnum í Tórínó í kvöld. AFP/Marco Bertorello

Lyon varð í kvöld Evrópumeistari kvenna í fótbolta með 3:1-sigri á Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Allianz-vellinum, heimavelli Juventus í Tórínó.

Barcelona var ríkjandi meistari og sigurstranglegra liðið fyrir leikinn í kvöld en Amadine Henry skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Lyon strax á 6. mínútu.

Norska markadrottningin Ada Hegerberg bætti við öðru marki fyrir Lyon á 23. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði bandaríska landsliðskonan Catarina Macario þriðja mark Lyon.

Alexia Putellas minnkaði muninn fyrir Barcelona á 41. mínútu en nær komust Spánarmeistararnir ekki og Lyon fagnaði sigri.

Sara Björk Gunnarsdóttir, sem vann keppnina með Lyon fyrir tveimur árum, var allan tímann á varamannabekk liðsins en hún hefur lítið fengið að spreyta sig síðan hún sneri aftur eftir að hafa átt sitt fyrsta barn í nóvember á síðasta ári.

Lyon hefur unnið keppnina oftast allra eða átta sinnum, þar af sex sinnum á síðustu sjö árum.

Leikmenn Lyon fagna í leikslok.
Leikmenn Lyon fagna í leikslok. AFP/Franck Fife
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert