„Eins og að koma aftur heim“

Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku. AFP/Tiziana Fabi

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku er genginn aftur í raðir ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó. Hann kemur á láni frá Chelsea.

Fyrir ári síðan var Lukaku keyptur til Chelsea á 97,5 milljónir punda, einmitt frá Inter þar sem hann hafði orðið Ítalíumeistari. Sú upphæð er hæsta upphæð sem Chelsea hefur nokkru sinni innt af hendi.

Inter greiðir Chelsea tæplega sjö milljónir punda fyrir lánssamninginn og tekur Lukaku á sig talsverða launalækkun til þess að komast aftur til Ítalíu.

„Ég er mættur aftur!“ sagði Lukaku í myndskeiði sem var birt á samfélagsmiðlum Inter.

„Þetta er eins og að koma aftur heim. Inter hefur gefið mér svo mikið og ég vonast nú til þess að gera enn betur en áður,“ sagði hann í samtali við Inter TV.

Lukaku skoraði 64 mörk í 95 leikjum í öllum keppnum fyrir Inter á árunum 2019 til 2021. Honum gekk hins vegar afar illa á liðnu tímabili með Chelsea og lét raunar hafa eftir sér í viðtali við Sky Italia snemma árs að hann vildi gjarna snúa aftur til Inter.

„Ég seldi ekki einu sinni heimili mitt hér þegar ég fór til Englands, sem er til marks um hve ánægður ég að vera kominn aftur hingað,“ sagði Lukaku einnig.

Spurður hvað hafi verið þess valdandi að hann vildi snúa aftur til Inter sagði Lukaku: „Ástúð aðdáendanna og liðsfélaga minna en einnig tækifærið til þess að vinna með þjálfaranum [Simone Inzaghi]. Ég var í sambandi við hann allt síðasta tímabil.“

mbl.is