Aftur glutraði Midtjylland niður þriggja marka forystu – Aron skoraði

Aron Sigurðarson skoraði eitt marka Horsens í kvöld.
Aron Sigurðarson skoraði eitt marka Horsens í kvöld. Ljósmynd/Horsens

Aron Sigurðarson skoraði eitt marka Horsens þegar liðið gerði ævintýralegt 3:3-jafntefli við Elías Rafn Ólafsson og félaga í Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Midtjylland var komið með 3:0-forystu þegar flautað var til leikhlés í Horsens en í síðari hálfleik fór allt úrskeiðis hjá gestunum.

Horsens minnkaði muninn eftir tæplega klukkutíma leik og skömmu síðar, á 67. mínútu, fékk Henrik Dalsgaard beint rautt spjald.

Á 87. mínútu fékk Horsens dæmda vítaspyrnu. Ekki nóg með það fékk Juninho sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brotið og Midtjylland því tveimur mönnum færri það sem eftir lifði leiks.

Horsens tókst að nýta sér liðsmuninn vel. Fyrst skoraði Aron framhjá Elíasi Rafni úr vítaspyrnunni á 88. mínútu og á annarri mínútu uppbótartíma jafnaði Magnus Risgård Jensen metin og tryggði Horsens þannig ævintýralegt jafntefli.

Þetta var annar deildarleikurinn í röð þar sem Midtjylland kemst í 3:0-forystu en missir hana niður í 3:3-jafntefli.

Það gerðist einnig fyrir viku síðan þegar Sævar Atli Magnússon skoraði dramatískt jöfnunarmark Lyngby seint í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert