Skammarlegustu úrslit sögunnar

Færeyjar gerðu sér lítið fyrir og unnu Tyrkland í gær.
Færeyjar gerðu sér lítið fyrir og unnu Tyrkland í gær. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Færeyja

Færeyska landsliðið í fótbolta gerði sér lítið fyrir og vann 2:1-heimasigur á Tyrklandi í C-deild Þjóðadeildar UEFA í gærkvöldi.

Um afar óvænt úrslit er að ræða, en um 50.000 manns búa í Færeyjum á meðan um 85 milljónir búa í Tyrklandi. Eins og gefur að skilja voru tyrkneskir fjölmiðlar lítt hrifnir af frammistöðu landa sinna.

„Þetta eru skammarlegustu úrslit sögunnar gegn Færeyjum. Þetta var stórslys og nú þarf að taka stórar ákvarðanir,“ skrifaði blaðamaður dagblaðsins Fanatik.

„Ég vil þakka Færeyjum fyrir að sýna okkur að fótboltinn er ekki lengur íþrótt fyrir okkur,“ bætti hann við.

Þjóðverjinn Stefan Kuntz er þjálfari tyrkneska liðsins og er hann valtur í sessi eftir úrslitin, sérstaklega eftir að liðinu mistókst að tryggja sér sæti á HM í Katar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert