Alves í gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðisbrot

Dani Alves í leik með Barcelona á síðasta tímabili.
Dani Alves í leik með Barcelona á síðasta tímabili. AFP/Pau Barrena

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Dani Alves var í morgun úrskurðaður í gæsluvarðhald í Katalóníu vegna gruns um að hafa brotið kynferðislega gegn konu á skemmtistað í Barcelona í desember síðastliðnum.

Í upphafi ársins, þann 2. janúar, barst lögreglunni í Katalóníu kvörtun frá konu sem sagði Alves hafi snert sig með óviðeigandi hætti.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum átti atvikið sér stað aðfaranótt 31. desember síðastliðins.

Dagblaðið ABC greinir frá því að Alves sé gefið að sök að hafa sett hendur sínar inn fyrir nærföt konunnar án hennar samþykkis og einnig elt hana inn á salerni.

Alves, sem er nú á mála hjá UNAM í Mexíkó, var boðaður á lögreglustöð í Barcelona þar sem honum var komið í gæsluvarðhald. Mun hann sitja fyrir svörum hjá dómara á næstunni.

Hann sagðist í samtali við spænsku sjónvarpsstöðina Antena 3 hafa verið á skemmtistaðnum þetta kvöld en að hann hafi „aldrei séð“ konuna sem sakar hann um kynferðisbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert