Aubameyang gerði ekkert rangt

Pierre-Emerick Aubameyang var kippt út úr Meistaradeildarhópi Chelsea.
Pierre-Emerick Aubameyang var kippt út úr Meistaradeildarhópi Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Graham Potter, knattspyrnustjóri Chelsea, segir það hafa verið erfiða ákvörðun að taka gabonska sóknarmanninn Pierre-Emerick Aubameyang úr 25-manna leikmannahóp liðsins fyrir útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Hann er fagmaður. Ég skil það vel að hann verði fyrir vonbrigðum, þetta var erfið ákvörðun.

Pierre er bara óheppinn og mun berjast fyrir sæti sínu það sem eftir er af tímabilinu,“ sagði Potter á blaðamannafundi eftir markalaust jafntefli Chelsea gegn Fulham í gærkvöldi.

Hann sagði ákvörðunina einungis tengjast miklum fjölda leikmanna sem Chelsea hefur yfir að skipa, Aubameyang hafi ekkert gert af sér.

„Hvaða ákvörðun sem við hefðum tekið vorum við alltaf að fara að eiga samræður um það. Þetta var mín ákvörðun, maður verður að taka slíkar ákvarðanir. Hann hefur ekki gert neitt rangt.“

Chelsea festi kaup á átta nýjum leikmönnum í janúarglugganum og því varð það ljóst að einhverjir þeirra kæmust ekki í hópinn en sömuleiðis að einhverjir leikmenn yrðu teknir úr honum.

Miðverðinum sterka, Benoit Badiashile, var ekki bætt inn í hópinn en Enzo Fernández, Mykhailo Mudryk og Joao Félix koma inn í hann á meðan Aubameyang dettur út.

mbl.is