Mikil óánægja með störf Hamréns?

Margir leikmenn danska knattspyrnufélagsins AaB eru sagðir afar ósáttir með vinnubrögð Eriks Hamréns, þjálfara danska liðsins.

Það er danski miðillinn Ekstrabladet sem greinir frá þessu en Hamrén, sem er 65 ára gamall, tók við liðinu í september á síðasta ári. 

Sænski þjálfarinn þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa stýrt því á árunum 2004-2008 en hann gerði liðið að Danmerkurmeisturum árið 2008.

Í frétt Ekstrabladet kemur meðal annars fram að nokkrir leikmenn félagsins hafi farið á fund framkvæmdastjórans Thomas Bælum og lýst yfir óánægju sinni með Hamrén.

AaB hefur ekki gengið vel á tímabilinu en liðið er með einungis 14 stig í ellefta og næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Hamrén er Íslendingum góðkunnugur en hann stýrði íslenska karlalandsliðinu á árunum 2018-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert