Með Freysa froðufellandi á línunni

Freyr Alexandersson hefur snúið við blaðinu hjá Kortrijk eftir áramótin.
Freyr Alexandersson hefur snúið við blaðinu hjá Kortrijk eftir áramótin. Ljósmynd/Kortrijk

Til þess að bjarga sér frá falli úr belgísku A-deildinni í fótbolta þurfa landsliðsmennirnir Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor Pálsson hjá Eupen að líkindum að senda sinn gamla þjálfara Frey Alexandersson niður um deild.

Fjögur neðstu lið deildarinnar fara í fallkeppni á næstu vikum og taka með sér stigin. Charleroi er með 29 stig, Eupen 24, Kortrijk 24 og Molenbeek 23. Útlit er því fyrir harða keppni þriggja neðri liðanna en eitt þeirra kemst í umspil á meðan tvö þau neðstu falla niður í B-deildina.

Freyr Alexandersson þjálfar Kortrijk en hann var aðstoðarþjálfari landsliðsins á sínum tíma, þar sem Alfreð og Guðlaugur Victor léku, og síðan lék Alfreð undir hans stjórn hjá Lyngby í Danmörku tímabilið 2022-23, og fyrstu vikurnar á yfirstandandi tímabili. Alfreð fór til Eupen í ágúst og Freyr tók við liði Kortrijk í janúar.

Fannst hann hálfklikkaður

„Þetta verður gríðarlega erfið fallkeppni, ekki síst að mæta Kortrijk með Freysa froðufellandi á línunni. Hann byrjaði eiginlega of vel með liðið fyrir minn smekk! Þeir virtust vera nánast fallnir áður en hann kom til félagsins og það bjóst enginn við neinu af Kortrijik. Mér fannst Freysi vera hálfklikkaður að taka við liðinu í þessari stöðu en hann er svo sannarlega búinn að snúa blaðinu við hjá liðinu," sagði Alfreð eftir æfingu landsliðsins í Búdapest í kvöld, spurður um fallslaginn með Eupen í Belgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert