Nú hafði HK betur í oddahrinu

Karen Gunnarsdóttir lék vel hjá HK.
Karen Gunnarsdóttir lék vel hjá HK. mbl.is

Þróttur frá Neskaupstað og HK mætturst í dag í Mikasadeild kvenna í blaki og var þetta annar leikur liðanna þar eystra um helgina. Heimastúlkur sigruðu í gær en í dag náðu Kópavogsbúar fram hefndum og unnu í fimm hrinum.

Leikurinn í dag var allur jafnari en í gær og stóð til dæmis hálftíma lengur þó svo hrinufjöldinn væri sá sami.

Þróttur var með pálmann í höndunum þegar þær voru komnar í 7-2 í oddahrinu en HK-stelpur náðu að sigla fram úr með sterkum uppgjöfum og móttaka Þróttara var ekki nógu góð. Berglind Gígja Jónsdóttir, uppspilari HK, fór í uppgjöf í stöðunni 11-11 og kláraði hún hrinuna með feikisterkum uppgjöfum og endaði oddahrinan í 11-15.

Hrinurnar enduðu þannig: 19-25, 25-21, 23-25, 28-26, 11-15.

Stigahæstar hjá Þrótti Nes. voru Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 22 stig og Erla Rán Eiríksdóttir 10 stig.

Stigahæstar hjá HK voru Karen Gunnarsdóttir með 15 stig og þær Elísabet Einarsdóttir og Mariam Eradze með 13 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert