Tveir Bretar á verðlaunapalli

Lizzy Yarnold varði Ólympíugullið í sleðakeppni kvenna.
Lizzy Yarnold varði Ólympíugullið í sleðakeppni kvenna. AFP

Lizzy Yarnold varði ólympíugullið í sleðakeppni kvenna á Vetr­arólymp­íu­leik­un­um í Pyeongchang í Suður-Kór­eu og samlandi hennar, Laura Deas, tók bronsið til að gera þetta að sigursælasta degi Bretlands í sögu Vetrarólympíuleikanna.

Jacqueline Lölling, frá Þýskalandi, var þeirra á milli og vann silfrið. Hin austurríska Janine Flock var fremst fyrir endasprettinn en hún gaf að lokum eftir og náði ekki inn á verðlaunapallinn.

Yarnold vann einnig til gullverðlauna í Sochi árið 2014 og er þar með fyrst Breta til að verja titil í keppninni. Fyrr í dag vann Izzi Atkin bronsverðlaun í brekkufimi kvenna á skíðum en aldrei áður höfðu Bretar unnið til þrennra verðlauna á einum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert